Freyr Alexandersson, þjálfari danska B-deildarliðsins í fótbolta, Lyngby, er samkvæmt heimildum fótbolta.net einn þeirra sem kemur til greina sem næsti þjálfari úrvalsdeildarliðsins Viborg.
Lars Friis, fráfarandi þjálfari Viborgar er að taka við stjórnartaumnum hjá AaB. Fram kemur í frétt bold.dk að Freyr hafi verið í viðræðum við Viborg áður en hann samdi við Lyngby.
„Viborg hefur ekki haft samband við okkur um Frey. Þegar Freyr var að semja við okkur á sínum tíma lét hann okkur vita að hann hefði rætt við forráðamenn Viborgar áður en hann ræddi við okkur. Hvort hann sé á óskalista hjá Viborg þessa stundina eru einungis vangaveltur," segir Nicas Kjeldsen, íþróttastjóri Lyngby í samtali við bold.dk.
Freyr sem tók við Lyngby í júní á síðasta er samningsbundinn félaginu í eitt og hálft ár í viðbót.
„Báðir aðilar eru afar sáttir við hvernig samstarfið gengur og ég er nokkuð viss um að það sé ekkert fararsnið á Frey," segir Kjeldsen enn fremur. Lyngby situr eins og sakir standa í þriðja sæti B-deildarinnar en vetrarfrí er í deildinni þessa stundina.