Þær komu frekar flatt upp á frétta­mann TV2 Nor­ge, fréttirnar sem knatt­spyrnu­maðurinn Emil Páls­son, leik­maður Sarps­borg sagði honum eftir leik Lillestrom og Sarps­borg í norsku úr­vals­deildinni í gær­kvöldi á heima­velli Lillestrom. Emil sagði þar frá því að hann hefði farið í hjarta­stopp á æfingu með FH í síðustu viku, hans annað hjarta­stopp á rúmu hálfu ári.

Að­spurður að því hvað væri að frétta sagði Emil þetta við norska frétta­manninn: ,,Það eru slæmar fréttir. Í síðustu viku fór ég aftur í hjarta­stopp á æfingu á Ís­landi." Við­talið við TV2 bar upp á þeim degi sem Emil hefði átt að fljúga til Noregs til þess að hefja æfingar að nýju með Sarps­borg.

,,Ég er mjög von­svikinn. Þetta var eitt­hvað sem ég hélt að myndi ekki gerast aftur," sagði Emil en hann segist ekki hafa upp­lifað alveg sömu til­finningar eftir seinna hjarta­stoppið eins og eftir það fyrra. ,,Í fyrra skiptið var ég mjög á­nægður með að vera á lífi, í seinna skiptið komu meiri von­brigði og að sama skapi var þetta meira sorg­legt vegna þess að ég var á góðum stað og það hafði allt gengið vel fram að þessu. Ég var klár í að hefja knatt­spyrnu­ferilinn á ný."

Emil hafði verið á æfingu með fyrrum liði sínu FH þegar að hann fór í hjartastopp í annað sinn

Gerðist upp úr þurru

Emil segist hins vegar vera mjög þakk­látur fyrir það að allt hafi gengið vel í kjöl­far þess að hann fór aftur í hjarta­stopp. At­vikið átti sér stað snemma á æfingu hjá FH en í fyrra skiptið fór hann í hjarta­stopp snemma leiks með Sogn­dal í Noregi.

,,Þetta var frekar svipað. Það hlýtur eitt­hvað að vera að hjarta mínu," segir Emil en ekki hafði verið búið að finna or­sök hjarta­stoppsins en komið var fyrir bjarg­ráði í honum eftir fyrra hjarta­stoppið, bjarg­ráði sem sannaði gildi sitt á dögunum.

Sá búnaður mun geta gefið læknum frekari upp­lýsingar en Emil mun á næstu vikum undir­gangast frekari rann­sóknir til þess að reyna komast að or­sök hjarta­stoppsins.

,,Þeir hafa ekki náð að finna nein vanda­mál í tengslum við hjartað síðustu fimm mánuði. Ég hef æft mikið og undir miklu á­lagi en aldrei lenti aldrei í vand­ræðum. Svo gerist þetta bara upp úr þurru á léttri æfingu."

Emil segir það alveg víst að ó­víst sé hvort knatt­spyrnu­ferill hans geti haldið á­fram. ,,Nú hefur þetta gerst tvisvar og það verður erfiðara að komast aftur í boltann. En það er svo­sem ekki 100% öruggt að ferillinn sé á enda. Það er stutt síðan þetta átti sér stað og núna þarf ég bara að hugsa um heilsuna svo verður tíminn bara að leiða það í ljós hver fram­vindan verður."

Emil í leik með Sogndal
Mynd: Tor Erik Schrøder / NTB

Hafði fengið grænt ljós

Í upp­hafi maí­mánaðar litu hlutirnir heldur betur vel út fyrir Emil og hann greindi frá því í við­tali við Frétta­blaðið að hann hefði fengið grænt ljós frá sér­fræðingum á að halda á­fram með knatt­spyrnu­feril sinn.

Emil fór í hjarta­stopp og hneig niður í leik með norska knatt­spyrnu­liðinu Sogn­dal í upp­hafi nóvember­mánaðar á síðasta ári. Segja má að Emil hafi verið dáinn í tæpar fjórar mínútur eftir að hafa hnigið niður en endur­lífgunar­til­raunir báru hins vegar árangur og undan­farna mánuði hefur hann, í nánu sam­starfi með sér­fræðingum, unnið að því að koma sér aftur í gott stand.

Ferlið undan­farna mánuði, fyrir hjarta­stopp síðustu viku, hafði að sögn Emils gengið vonum framar. „Ég fann strax í byrjun hversu mikið mig langaði að láta á þetta reyna. Löngunin í að komast aftur á þann stað sem ég var á fyrir hjarta­stoppið var sömu­leiðis mikil og ég fann það með hverri vikunni sem leið að þetta væri það sem ég vildi stefna að."