Þær komu frekar flatt upp á fréttamann TV2 Norge, fréttirnar sem knattspyrnumaðurinn Emil Pálsson, leikmaður Sarpsborg sagði honum eftir leik Lillestrom og Sarpsborg í norsku úrvalsdeildinni í gærkvöldi á heimavelli Lillestrom. Emil sagði þar frá því að hann hefði farið í hjartastopp á æfingu með FH í síðustu viku, hans annað hjartastopp á rúmu hálfu ári.
Aðspurður að því hvað væri að frétta sagði Emil þetta við norska fréttamanninn: ,,Það eru slæmar fréttir. Í síðustu viku fór ég aftur í hjartastopp á æfingu á Íslandi." Viðtalið við TV2 bar upp á þeim degi sem Emil hefði átt að fljúga til Noregs til þess að hefja æfingar að nýju með Sarpsborg.
,,Ég er mjög vonsvikinn. Þetta var eitthvað sem ég hélt að myndi ekki gerast aftur," sagði Emil en hann segist ekki hafa upplifað alveg sömu tilfinningar eftir seinna hjartastoppið eins og eftir það fyrra. ,,Í fyrra skiptið var ég mjög ánægður með að vera á lífi, í seinna skiptið komu meiri vonbrigði og að sama skapi var þetta meira sorglegt vegna þess að ég var á góðum stað og það hafði allt gengið vel fram að þessu. Ég var klár í að hefja knattspyrnuferilinn á ný."

Gerðist upp úr þurru
Emil segist hins vegar vera mjög þakklátur fyrir það að allt hafi gengið vel í kjölfar þess að hann fór aftur í hjartastopp. Atvikið átti sér stað snemma á æfingu hjá FH en í fyrra skiptið fór hann í hjartastopp snemma leiks með Sogndal í Noregi.
,,Þetta var frekar svipað. Það hlýtur eitthvað að vera að hjarta mínu," segir Emil en ekki hafði verið búið að finna orsök hjartastoppsins en komið var fyrir bjargráði í honum eftir fyrra hjartastoppið, bjargráði sem sannaði gildi sitt á dögunum.
Sá búnaður mun geta gefið læknum frekari upplýsingar en Emil mun á næstu vikum undirgangast frekari rannsóknir til þess að reyna komast að orsök hjartastoppsins.
,,Þeir hafa ekki náð að finna nein vandamál í tengslum við hjartað síðustu fimm mánuði. Ég hef æft mikið og undir miklu álagi en aldrei lenti aldrei í vandræðum. Svo gerist þetta bara upp úr þurru á léttri æfingu."
Emil segir það alveg víst að óvíst sé hvort knattspyrnuferill hans geti haldið áfram. ,,Nú hefur þetta gerst tvisvar og það verður erfiðara að komast aftur í boltann. En það er svosem ekki 100% öruggt að ferillinn sé á enda. Það er stutt síðan þetta átti sér stað og núna þarf ég bara að hugsa um heilsuna svo verður tíminn bara að leiða það í ljós hver framvindan verður."

Hafði fengið grænt ljós
Í upphafi maímánaðar litu hlutirnir heldur betur vel út fyrir Emil og hann greindi frá því í viðtali við Fréttablaðið að hann hefði fengið grænt ljós frá sérfræðingum á að halda áfram með knattspyrnuferil sinn.
Emil fór í hjartastopp og hneig niður í leik með norska knattspyrnuliðinu Sogndal í upphafi nóvembermánaðar á síðasta ári. Segja má að Emil hafi verið dáinn í tæpar fjórar mínútur eftir að hafa hnigið niður en endurlífgunartilraunir báru hins vegar árangur og undanfarna mánuði hefur hann, í nánu samstarfi með sérfræðingum, unnið að því að koma sér aftur í gott stand.
Ferlið undanfarna mánuði, fyrir hjartastopp síðustu viku, hafði að sögn Emils gengið vonum framar. „Ég fann strax í byrjun hversu mikið mig langaði að láta á þetta reyna. Löngunin í að komast aftur á þann stað sem ég var á fyrir hjartastoppið var sömuleiðis mikil og ég fann það með hverri vikunni sem leið að þetta væri það sem ég vildi stefna að."