Móðir hans, Nesta, hafði látið lífið, 94 ára að aldri og Wright fékk fréttirnar um það bil 30 sekúndum fyrir beina útsendingu frá seinni hálfleik í leik Rochdale og Plymouth.

Ekki er langt um liðið frá því að þessi frægi markaskorari greindi frá erfiðri æsku sinni á heimili með móður sinni og stjúpföður hans sem kom oftar en ekki illa fram við hann. Það kom fram í heimildarmyndinni Home Truths sem var á dögunum sýnd á BBC. Jafnframt kom þar fram að hann hefði sæst við móður sína.

Ian Wright og móðir hans Nesta

Náinn vinur Wrights segir hann skiljanlega hafa farið af knattspyrnuvellinum og ekki tekið þátt í útsendingu ITV frá enska bikarnum. ,,Hann yrði fyrstur til þess að viðurkenna að hann átti í erfiðu sambandi við móður sína en að fá þær fregnir að móðir manns hafi látið lífið tekur á fyrir hvern sem er."

,,Honum bárust þessar fregnir skömmu fyrir seinni hálfleik á laugardaginn og vildi fara og vera með fjölskyldu sinni. ITV sýndi því að sjálfsögðu skilnnig," sagði náinn vinur Ian Wrights í samtali við The Sun.

Ian Wright lék á sínum tíma 221 leik með Arsenal og skoraði 128 mörk. Þá var hann einnig á mála hjá liðum á borð við Crystal Palace og West Ham United. Hann varð enskur bikarmeistari einu sinni og varð Englandsmeistari í tvígang.