Tveimur leikjum í Subway-deild karla í körfubolta hefur verið frestað vegna COVID. Annars vegar er um að ræða leik Vals og KR og hins vegar leik Þórs Akureyrar og Tindastóls.

Báðir leikir voru á dagskrá á morgun, þriðjudaginn 28. desember. Þetta kemur fram í tilkynningu frá KKí þar sem segir enn fremur að leikjunum hefur ekki verið fundinn nýr leiktími.

Framangreindum leikjum var frestað vegna smita í herbúðum Vals og Tindastóls.

Tvíhöfði Keflavíkur og Njarðvíkur hefur svo verið færður af miðvikudeginum 29. desember til fimmtudagsins 30. desember.

Einnig hefur leikjunum verið víxlað, þannig að leikur karlaliða Keflavíkur og Njarðvíkur verður kl. 17:45 og leikur kvennaliða félaganna verður kl. 20:15.