Búið er að fresta þremur leikjum af tíu sem voru á dagskrá í ensku úrvalsdeildinni um helgina vegna jarðarfarar Elísabetar Bretlandsdrottningar á sunnudaginn.

Þetta var staðfest rétt í þessu en öllum tíu leikjunum var frestað um síðustu helgi eftir að Elísabet lést fimmtudaginn 8. september.

Ekkert verður úr einvígi erkifjendanna í Leeds og Manchester United né stórleik Chelsea og Liverpool á Stamford Bridge. Báðir leikirnir voru á dagskrá á sunnudag.

Þá var ákveðið að fresta leik Brighton og Crystal Palace á laugardeginum og fær Brighton því nægan tíma til að finna arftaka Graham Potter.