Íslandsmót í flokki 10 ára drengja og 10 ára stúlkna átti að fara fram um helgina. 200 COVID-19 smit greindust á Íslandi í gær og fjöldinn allur er nú í sóttkví vegna þeirra.

„Það átti að vera Íslandsmót 10 ára drengja í Garðabæ og 10 ára stúlkna í Keflavík. Því hefur verið frestað," sagði Snorri Örn Arnaldsson mótastjóri KKÍ við Fréttablaðið í dag.

Mótið sem fram átti að fara í Ásgarði í Garðabæ átti að vera fjölmennt mót en mikið hefur verið um smit í Garðabæ samkvæmt fréttum dagsins.

„Drengja mótið var mun stærra mót, það voru nokkur lið komin í vanda vegna sóttkvíar. Það var lítil stemming fyrir því að mæta eins og staðan er í þjóðfélaginu núna. Þetta var heppilegasta niðurstaðan og mótið sett á í janúar, ef aðstæður leyfa til," segir Snorri við Fréttablaðið.

Allt annað mótahald í meistaraflokki og öðrum flokkum er samkvæmt áætlun en Snorri segir að það geti þó breyst.

„Við sjáum hvað gerist eftir ríkisstjórnarfund á morgun, það verður bara að hafa sinn gang," segir Snorri en hertar aðgerðir hafa verið boðaðar á morgun.