Enska úrvalsdeildin tilkynnti í gær að ákveðið hefði verið að fresta leik Aston Villa og Everton sem var á dagskrá um helgina. Þetta er í þriðja sinn í vetur sem fresta þarf leik hjá Aston Villa en í annað skiptið sem leikur fellur niður hjá Everton vegna áhrifa kórónaveirufaraldursins.

Villa er enn að glíma við afleiðingar kórónaveirusmits og eru leikmenn ýmist í einangrun eða í sóttkví og var því samþykkt beiðni Aston Villa um að fresta öðrum leiknum í röð. Áður var búið að fresta leik Aston Villa gegn Tottenham á miðvikudaginn. Þá var leik Aston Villa gegn Newcastle frestað fyrir mánuði eftir að kórónaveirusmit kom upp hjá Newcastle.

Þetta er annar deildarleikurinn á tveimur vikum sem hefur verið frestað hjá Everton eftir að smit kom upp hjá andstæðingi þeirra. Áður var leik Everton og Manchester City frestað undir lok síðasta árs.