Ákveðið var að fresta BNP Paribas Open mótinu í tennis þar sem stærstu stjörnur heimsins áttu að koma saman í Kaliforníu af ótta við frekari útbreiðslu kórónaveirunnar.

Um er að ræða mót sem er hluti af níu mótum á ATP Tour Masters mótaröðinni og voru flestar af stærstu stjörnum tennisíþróttarinnar skráðar til leiks.

Það er hátt verðlaunafé í boði og mætir fjöldi aðdáanda á ári hverju til Indian Wells í Kaliforníu sem hefur leitt til þess að mótið hefur verið kallað fimmta risamót ársins. Um 450.000 áhorfendur mættu á mótið í fyrra.

Fyrstu leikirnir áttu að fara fram í dag og voru forráðamenn mótsins búnir að vinna að því að auðvelda aðgengi gesta að hreinlætisvörum á borð við sótthreinsandi.

Um helgina greindist fyrsti aðilinn á svæðinu með kórónaveiruna og ákváðu forráðamenn mótsins um leið að fresta mótinu í bili.

Þetta er í fyrsta sinn sem kórónaveiran kemur í veg fyrir slíkan viðburð í Bandaríkjunum en útbreiðsla veirunnar er að koma í veg fyrir hin ýmsu keppnir víðsvegar um heiminn.

https://twitter.com/RafaelNadal/status/1236879297945595904