Frederik Schram, markvörður Vals segir kostulega sögu frá fyrsta landsliðsverkefni sínu með íslenska landsliðinu þegar að Lars Lagerback var landsliðsþjálfari liðsins á sínum tíma. Frederik sagði söguna í hlaðvarpsþætti bold.dk.

Umrædd saga sneri að vináttulandsleik sem íslenska landsliðið átti gegn því pólska á útivelli þar sem uppselt var á leikinn, um 60 þúsund pólskir stuðningsmenn mættir á völlinn.

Frederik átti erfitt með það oft á tíðum að skilja enskuna hjá Lagerback og einn slíkur misskilningur út frá því átti sér stað fyrir leikinn gegn Póllandi.

Frederik var síðasti leikmaður íslenska liðsins inn í búningsklefann fyrir leik og í dyragættinni stóð Lars Lagerback sem spurði hann á ensku:

,,Are you lost?" sem þýðist yfir á íslensku sem: Ertu týndur?

Eða það var það sem Frederik hélt að Lagerback hefði spurt sig að.

Frederik var undrandi á þessari spurningu landsliðsþjálfarans, hann var ekkert týndur vissi nákvæmlega að hann væri kominn inn í búningsklefa landsliðsins og svaraði spurningu Lagerback því neitandi, hann væri ekkert týndur.

Það var ekki fyrr stuttu seinna, eftir spurningu Lagerback, sem Frederik var sestur niður og sá þjálfarann ítrekað kíkja eftir einhverjum fyrir utan búningsklefann, sem hann áttaði sig á misskilningnum.

Lagerback hafði í raun spurt Frederik hvort að hann væri síðastur af leikmönnum inn í búningsklefann, þá spurningu bar hann upp á ensku sem: ,,Are you last?"

Enski framburður sænska þjálfarans olli því hins vegar að Frederik mistúlkaði orðið last fyrir lost.

Upptöku af frásögn Frederiks af atvikinu má sjá hér fyrir neðan en það var mikið hlegið að þessu í stúdíói bold.dk.