Yfirlýsing frá KSÍ um starfslok Eiðs Smára Guðjohnsen, barst laust fyrir miðnætti á mánudaginn eftir maraþonfund stjórnar KSÍ. Starfslokin eru sögð tengjast persónulegum málefnum Eiðs Smára en samkvæmt heimildum DV má ástæðu starfslokanna rekja til gleðskapar á vegum KSÍ sem haldinn var eftir leik íslenska karlalandsliðsins gegn Norður-Makedóníu er liðið lauk keppni í undankeppni Heimsmeistaramótsins í Katar.

Benedikt Bóas Hinriksson, blaðamaður á Fréttablaðinu, segir að framvinda málsins eftir yfirlýsingu KSÍ, hafi ekki verið sambandinu til framdráttar. Þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir fjölmiðla til þess að fá nánari útskýringar á framvindu málsins, hefur ekki náðst í Vöndu Sigurgeirsdóttur, formann KSÍ né Arnar Þór Viðarsson, landsliðsþjálfara íslenska karlalandsliðsins.

,,Framvindan hefur verið slík að ósómi er af, það svarar enginn símanum, það stígur enginn fram. Vanda hagar sér í raun eins og Guðni Bergsson gerði. Hún dregur sig bara til baka og það er eins og Ómar Smárason, samskiptafulltrúi KSÍ sé andlit sambandsins. Þetta er fyrir neðan allar hellur."

Benedikt Bóas segir fólk hins vegar ekkert þurfa að fara í meðvirknikast með Eiði Smára. ,,Það var boðið upp á áfengi í þessum gleðskap og maðurinn er náttúrulega veikur. Það átti bara að fá sér einhverja tvo, þrjá drykki, menn spjalla um þessa keppni og fleira. Það gengur ekki og Eiður var náttúrulega á gulu spjaldi frá KSÍ. Þeir sem hafa verið í fótbolta þekkja það að ef þú ert að fá þér í glas þá kemur þjálfarinn, heilsar upp á þá og svo er hann farinn. Hann er ekkert að blanda þessu tvennu saman. Hann hefði bara átt að fara inn á herbergi. Þessi sjúkdómur er þannig að hann fer ekki í manngreiningarálit.

Benedikt Bóas var síðan spurður að því hvað tæki við hjá Eiði Smára. ,,Ég tel að hann þurfi að fara í meðferð en hann áttar sig ábyggilega ekki enn á því að hann hafi gert eitthvað rangt miðað við fræg ummæli hans í sumar þegar að hann hélt að hann hefði tekið á sínum málum.."