Sport

„Framtíðin er björt í frjálsum íþróttum“

Tæplega níu milljónum króna hefur verið úthlutað úr afrekssjóði Frjálsíþróttasambands Íslands. Framlag ríkisins hefur aukist og þá hefur gengið vel að fjölga styrktaraðilum. Framkvæmdastjóri FRÍ er ánægður.

Arna Stefanía Guðmundsdóttir og Aníta Hinriksdóttir eru í hópi afreksfólks FRÍ. Fréttablaðið/Eyþór

Stjórn Frjálsíþróttasambands Íslands, FRÍ, samþykkti á fundi sínum í upphafi vikunnar þá tillögu sem afrekssjóður sambandsins lagði fyrir stjórnina um fyrri úthlutun úr sjóðnum fyrir árið 2018.

Nýverið var framlag ríkissjóðs til afrekssjóðs ÍSÍ hækkað og við það eykst það fjármagn sem sjóður á borð við afrekssjóð FRÍ hefur úr að spila. 

Guðmundur Karlsson, framkvæmdastjóri FRÍ, segir að aukinheldur hafi sambandinu gengið vel að laða að sér styrktaraðila fyrir afrekssjóðinn.

„Það var ofboðslega jákvætt skref tekið þegar ríkið ákvað að stíga fastar til jarðar hvað varðar styrkveitingu sína til sérsambanda á borð við okkur. Við erum í efsta flokki þegar kemur að styrkjum til sérsambanda og við erum mjög ánægð með framlag ríkissjóðs. Þá hefur stuðningsaðilum fjölgað og styrkir þeirra hækkað undanfarið,“ sagði Guðmundur í samtali við Fréttablaðið.

Afrekssjóður FRÍ úthlutar nú tæpum níu milljónum króna, en sjóðurinn byggir á ýmsum tekjum sambandsins, til að mynda þeim sem koma í gegnum Afrekssjóð ÍSÍ og styrkjum sem FRÍ safnar eins og áður kemur fram. Guðmundur segir að jákvæð skref hafi verið tekin á undanförnum árum, en vissulega megi gera betur fyrir okkar fremsta fólk í frjálsum íþróttum.

„Okkar stærsta verkefni í sumar í fullorðinsflokki er Evrópumeistaramótið sem fram fer í Berlín í Þýskalandi. Þessir styrkir duga vissulega ekki einir og sér til þess að afreksfólk sem við eigum geti æft á pari við afreksfólk stærstu þjóðanna í frjálsíþróttaheiminum. Þetta borgar ekki þann kostnað sem kemur til varðandi þátttöku þeirra á stórmótum. Þetta er hins vegar mikil búbót og við erum afar þakklát fyrir þetta,“ sagði Guðmundur enn fremur um styrkveitinguna.

„Afreksefni okkar verða svo á ferðinni á Evrópumeistaramóti U18 sem fram fer í Györ í Ungverjalandi í byrjun júlí og svo er Heimsmeistaramót U20 viku seinna í Tampere í Finnlandi. Við erum komin með nokkra þátttakendur inn á þessi mót og svo eru fjölmörg verkefni fram undan hér heima og erlendis þar sem þátttakendum á mótinu gæti klárlega fjölgað. Framtíðin er björt í frjálsum íþróttum hér á Íslandi,“ segir Guðmundur um komandi verkefni hjá íslensku frjálsíþróttafólki.

Athugasemdir

Auglýsing
Auglýsing

Tengdar fréttir

Körfubolti

Danielle fór á kostum í sigri Stjörnunnar

Sport

Hilmar keppir á lokamóti heimsbikarsins

Sport

Rúnar Már á förum frá Sviss í sumar

Auglýsing

Nýjast

Íþróttadómstóll dæmir PSG í hag gegn UEFA

Wayne Rooney sýndi á sér nýja hlið

Al Arabi staðfestir komu Arons

Mæta Argentínu en ekki Angóla á æfingarmótinu

Bernando segir markmið City að vinna fernuna

Ragnheiður inn í landsliðið fyrir Mariam

Auglýsing