Samningur Mick Schumachers við ökumannsakademíu Formúlu 1 liðs Ferrari rennur út í desember næstkomandi og þá virðist það næstum því öruggt að hann vermi ekki annað ökumannssætið hjá bandaríska Formúlu 1 liðinu Haas á næsta tímabili. Hann verður því án samnings og framtíð hans í mótaröðinni í uppnámi.

Það er Motorsport.com sem greinir frá þessu í dag en Mick, sem er sonur Formúlu 1 og Ferrari goðsagnarinnar Michael Schumachers, hefur verið á mála hjá Ferrari síðan árið 2019. Haas er eitt af þeim liðum sem hefur haft sterka tengingu við Ferrari undanfarið og því þótti það gott skref fyrir bæði Ferrari, Haas og Schumacher að láta hann reyna fyrir sér hjá síðarnefnda liðinu.

„Þó Haas hafi ekki staðfest neitt er það skilningurinn innan Formúlu 1 búbblunnar að Schumacher verði ekki áfram ökumaður liðsins á næsta tímabili. Á þessari stundu þykir það líklegast að Antonio Giovinazzi taki sæti hans og aki við hlið Kevin Magnussen," segir í frétt Motorsport.com.

Mick þreytti frumraun sína sem ökumaður í Formúlu 1 á síðasta tímabili þar sem hann ók við hlið Nikita Mazepin hjá Haas. Mick bar höfuð og herðar yfir liðsfélaga sinn á því tímabili en á yfirstandandi tímabili hefur honum ekki tekist að hafa eins mikla yfirburði gegn núverandi liðsfélaganum, Dananum reynslumikla Kevin Magnussen.

Það er alls ekki víst að lið sjái það sem rökrétt skref að fá Mick Schumacher til liðs við sig. Hann hefur þó á köflum sýnt burði til þess að geta verið í Formúlu 1 og þá gæti eftirnafn hans, sem er þekkt um allan heim, dregið að styrktaraðila til þess liðs sem myndi mögulega taka stökkið.

Eins og staðan er núna eru laus sæti hjá Alpine, Williams fyrir næsta tímabil. Beðið er niðurstöðu í máli ökumannsins unga Oscar Piastri, Alpine og McLaren og því ekki hægt að áætla að það sæti sé laust.

Hlutirnir eru hins vegar fljótir að breytast í Formúlu 1 eins og hefur bersýnilega sést undanfarna mánuði og verður fróðlegt að fylgjast með gangi mála hjá Schumacher á næstunni.