Það er ótrúlegt frá því að segja en þrátt fyrir 100% árangur hingað til í riðli sínum á Evrópumótinu í handbolta er enn möguleiki á því að Ísland geti lokið keppni á mótinu í kvöld.

Andstæðingur dagsins eru særðir Ungverjar sem voru taldir líklegir til afreka fyrir mót en eiga nú einnig hættu á að falla úr leik í riðlakeppninni og það á heimavelli.

Eftir óvænt tap í fyrsta leik gegn Erlingi Richardssyni og lærisveinum hans í Hollandi, náðu Ungverjar að rétta úr kútnum með eins marks sigri á Portúgal.

Það verður því allt undir þegar að liðin mætast klukkan 17 í kvöld í Búdapest þar sem leikið verður í glænýrri höll sem tekur 20.000 manns í sæti, lætin verða mikil og baráttan innan vallar verður ekki síðri.

Hafa spilað undir getu

Ungverjarnir eru særðir og undir mikilli pressu. Hér verður farið yfir lykilleikmenn þeirra.

Fyrstan ber að nefna marka- og stoðsendingahæsta leikmann þeirra á mótinu til þessa. Mate Lekai er leikmaður Veszprém í heimalandinu og hefur hingað til á mótinu skorað 15 mörk og gefið 8 stoðsendingar. Lekai er 33 ára, spilar sem miðjumaður og hefur verið einn af burðarásum liðsins undanfarin ár og er það enn.

Mate Lekai er marka- og stoðsendingarhæsti maður Ungverja á mótinu til þessa
GettyImages

Varnarmenn Íslands munu þurfa að hafa góðar gætur á hinum hávaxna línumanni Ungverja, Bence Banhidi, einum besta línumanni heims um þessar mundir. Banhidi spilaði ekki á móti Portúgal eftir að hafa meiðst á ökkla gegn Hollendingum í fyrsta leik mótsins en ætti að geta beitt sér í kvöld.

Erfitt getur reynst að eiga við Bence Banhidi línumann Ungverja
GettyImages

Íslenska liðið mun þurfa að hafa góðar gætur á hægri skyttu Ungverja í kvöld. Dominik Mathé, hefur skorað 12 mörk á mótinu til þessa og er til alls líklegur. Það segir sitt að hann er á leið til Paris Saint-Germain á næstu leiktíð.

Dominik Mathé er til alls líklegur
GettyImages

Sviðsmyndir kvöldsins eru fjölmargar en vinni Ísland er liðið komið áfram í milliriðla, það eitt er öruggt. Aðrar mögulegar sviðsmyndir má lesa í greininni hér fyrir neðan