Jamie Jackson, blaðamaður The Guardian og Observer um málefni Manchester United veltir eftirfarandi spurningu upp í greiningu sinni sem birtist á vef fyrrgreinda fjölmiðilsins: „Eftir að ákærur voru felldar niður á hendur kannski hæfileikaríkasta unga leikmanns félagsins, mun félagið taka hann inn aftur?“
Í gær var greint frá því að ákærur á hendur Mason Greenwood, leikmanns Manchester United um tilraun til nauðgunar, líkamsárásar og stjórnandi hegðunar hefðu verið felldar niður. Greenwood var handtekinn fyrir um ári síðan þegar að þáverandi kærasta hans, Harriet Robson, steig fram og birti myndir og hljóðbrot af samskiptum sínum við leikmanninn.
Á myndunum sem hún birti mátti sjá hana alblóðuga og marða og í texta sem fylgdi myndunum skrifaði hún að það væri svona sem Greenwood kæmi fram við hana.
Ekkert gefið varðandi framtíðina
Fyrirtaka í máli hins 21 árs gamla Greenwood átti að fara fram í nóvember síðar á þessu ári en í gær tilkynntu lögregluyfirvöld í umdæmi Manchester að ákærurnar á hendur honum hefðu verið felldar niður. Manchester United ætlar að hefja sína eigin rannsókn á málavöxtum í í kjölfar hennar taka ákvörðun um næstu skref. Greenwood mun hvorki æfa né spila með félaginu þangað til.
„Greenwood, sem gæti talist sem hæfileikaríkasti ungi knattspyrnumaðurinn hjá Manchester United, hefur verið fjarri aðalliði félagsins í rúmt ár núna og leikmannahópur félagsins gæti haft mismunandi skoðanir á mögulegri endurkomu hans,“ skrifar blaðamaðurinn Jamies Jackson í greiningu á vef The Guardian.
Greenwood sé, samkvæmt lögum, saklaus maður „en yfirlýsing United varðandi framtíð hans sýnir að það er ekkert gefið að hann verði boðin velkominn aftur, þrátt fyrir að vera með samning til ársins 2025.“
Spurning af öðrum toga
Það sé siðferðisleg hlið á þessu máli sem félagið, leikmenn og Erik ten Hag, knattspyrnustjóri Manchestert United þurfa að glíma við.
„Og dómstóll almenningsálitsins, sem hvorki Manchester United né Greenwood geta haft áhrif á. Þá mun stór hópur stuðningsmanna Manchester United ,sem lásu um málið, heyrðu upptökurnar og sáu myndböndin sem voru hluti af sönnunargögnum gegn honum, hafa sína skoðun.“
Spurning af öðrum toga
Erik ten Hag tók við Manchester United fyrir yfirstandandi tímabil og hefur átt frekar krefjandi byrjun í starfi þrátt fyrir að úrslitin innan vallar hafi verið mjög góð. Málefni Cristiano Ronaldo höfðu verið í brennidepli, Ten Hag sá hann ekki sem byrjunarliðsmann og á endanum var samningi leikmannsins rift eftir mikinn hvell og umdeilt viðtal sem vakti gríðarlega athygli. Þá tók Ten Hag ákvörðun um að bekkja fyrirliða liðsins Harry Maguire.
„Spurningin um framtíð Greenwood er hins vegar af annars konar tagi og ekki víst að ákvörðunin um hana liggi bara hjá Ten Hag þar sem félagið verður að fara vel yfir sín gildi, hvernig möguleg inntaka hans gæti haft áhrif á ímynd og stöðu félagsins.“
Sama hvaða ákvörðun Manchester United mun taka, mun sú ákvörðun hafa mikil áhrif.
Í yfirlýsingu frá Greenwood sem birt var í gær og hefur verið í fjölmiðlum á Bretlandseyjum segist Greenwood vera létt yfir niðurstöðunni.
,,Mér er létt yfir því að þessu skuli nú loks vera lokið og vil þakka fjölskyldu minni, ástvinum og vinum fyrir þeirra stuðning. Ég mun ekki tjá mig frekar að svo stöddu,“ sagði í fremur stuttorðri yfirlýsingu frá leikmanninum.