Haukur hefur haft áhuga á fótbolta frá unga aldri. „Ég æfði fótbolta með Ungmennafélagi Bessastaðahrepps þar sem ég ólst upp og heitir nú Álftanes. Við fórum alltaf einu sinni á ári til Keflavíkur og kepptum á herstöðinni og ég gerðist meira að segja svo frægur að handleggsbrotna í innanhússleik. Keppnisskapið var og er alveg til staðar. Það var svo stóri bróðir minn hann Halldór, sem lifir fyrir Liverpool, sem kom mér inn í það að horfa á enska boltann. Hans vegna hef ég verið forfallinn Liverpoolmaður alla tíð og missi varla af leik.

Maður fór svo á landsleiki af og til sem krakki, man bara eftir því að standa í stæði í rigningunni og sjá Ísland skíttapa aftur og aftur. Fyrsta góða minningin var svo þegar við náðum 1-1 jafntefli við Frakkana. Sat þá með Halldóri bróður í stúkunni sem hafði verið flutt inn og hent upp bak við annað markið. Það var svakalegt hvað stúkan nötraði, hristist og skalf þegar Rikki Daða skoraði markið. Hin síðari ár er náttúrulega búið að vera draumur að fylgjast með þessu frábæra landsliði okkar. Og reyndar alveg yndislegt að horfa á Liverpool þessa dagana líka. Þannig að ég kvarta ekki.“

Heill mánuður af fótbolta

Hann segist alltaf hafa fylgst með HM af miklum áhuga. „HM í fótbolta er alltaf yndislegur tími. Heill mánuður af fótbolta, leikir oft á dag, fullt af leikmönnum frá öllum heiminum sem maður hefur aldrei séð áður, og möguleikinn á því að sjá framtíðarstjörnur verða til er góð blanda.“ 

Uppáhaldsliðin hans voru yfirleitt England og Brasilía. „Þar sem Ísland var náttúrulega aldrei á neinum stórmótum þegar ég var yngri varð ég að velja mér uppáhaldslið og hélt vanalega með Englandi einfaldlega vegna þess að þar voru flestir Liverpoolmenn að spila. Ég hélt líka stundum með Brasilíu vegna þess að þeir spiluðu skemmtilegan bolta.“

HM 2002 í uppáhaldi

Haukur segir að HM 2002 í Japan og Suður-Kóreu séu í miklu uppáhaldi. „Það var gaman að sjá England komast lengra en bara riðlakeppnina eða 16 liða úrslit eins og vanalega en þeir komust í 8 liða úrslit í það skipti. Ekki skemmdi fyrir að Owen og Heskey skoruðu í 3-0 sigri á móti Dönum í 16 liða úrslitum. Að vinna Dani og fá tvö mörk frá Liverpoolmönnum? Verður ekki betra.

England mætti svo Brasilíu í 8 liða úrslitum og ég gleymi aldrei þeim leik. Fyrst skoraði Owen en eftir jöfnunarmark frá Rivaldo skoraði Ronaldinho sturlað mark beint úr aukaspyrnu. Hálfpartinn vippaði boltanum yfir bæði David Seaman og yfirvaraskeggið hans. Brasilía endaði svo á því að vinna mótið með sigri á Þýskalandi í úrslitum með tveimur mörkum frá gamla Ronaldo. Geggjað mót. 

Ég man líka hvað leikirnir voru á skrítnum tímum á þessu móti þar sem það var náttúrulega hinum megin á hnettinum og það voru dómaraskandalar hér og þar en það er bara skemmtilegt. Ítalir alveg brjálaðir man ég, eftir að hafa dottið út á móti Suður-Kóreu sem var spútnik lið keppninnar, sló út Ítalíu og svo Spán. Svo var þetta blessaða gullmark notað í þessari keppni. Mikið óttalega er ég glaður að menn sáu ljósið og hættu með þá reglu.“

Haukur hlakkar mikið til HM núna en ætlast ekki til of mikils af landsliðinu. „Þó að karlaliði Íslands hafi gengið fáránlega vel á sínu fyrsta stórmóti fyrir tveimur árum, þá held ég að best sé að stilla væntingunum í hóf núna. Þetta er fyrsta skiptið okkar á HM og við lentum í svakalega erfiðum riðli. Auðvitað geta nánast allir unnið alla í nútímafótbolta, en það verður að segjast að í riðlinum eru gríðarlega erfiðir andstæðingar sem verður erfitt að vinna, jafnvel að ná jafntefli. Ég vona bara að við náum að setja nokkur mörk og stríða þessum stórþjóðum, allt annað er bara bónus.“

Hann mun fylgjast með HM af athygli í sumar. „Ég fer með Kjartani tengdapabba á Ísland - Argentína í Moskvu og hlakka mikið til. Þetta verður stutt ferð en maður verður bara að sofa minna og gera og sjá meira í staðinn. Svo er ég að fara í frí til Ítalíu með fjölskyldunni og Nínu tengdamömmu og það verður mjög sérstakt þar sem þetta er í fyrsta skipti sem Ítalía er ekki með á HM síðan 1958! Ég var í Þýskalandi fyrir fjórum árum þegar HM var í gangi og það var ótrúlegt að fylgjast með stemningunni sem var þar í gangi. Það verður fróðlegt að sjá hvernig hún verður í Róm núna í júní.“

Nýtt lag og bókaútgáfa

Utan fótboltans er ýmislegt á döfinni hjá Hauki Heiðari á næstu vikum og mánuðum. „Ég var að gefa út lagið Draumaland, sem er mitt fyrsta lag sem sólólistamaður og er það farið að heyrast í útvarpi og komið á Spotify. Ég held áfram að vinna að plötunni í sumar. Svo er nóg að gera í læknisstarfinu en fyrir utan heimilislæknastörf þá er ég liðslæknir hjá FH og mun fara með þeim í Evrópukeppnina í sumar. Svo er nóg að gera í fjölskyldufyrirtækinu, en við erum með barnabókaútgáfu sem heitir Rósakot og erum að undirbúa útgáfur haustsins á fullu. Þannig að það er alveg nóg að gera hjá mér. En ég ætla samt að horfa á HM!“