Saksóknarinn sem er með mál Brittney Griner á sínu borði samþykkti í gær að framlengja gæsluvarðhald yfir einni af bestu körfuboltakonum heims í Rússlandi.

Málið verður tekið fyrir að nýju þann 2. júlí næstkomandi en hún hefur verið í haldi rússneskra yfirvalda frá 17. febrúar. Þetta er í annað sinn sem gæsluvarðhaldið er framlengt.

Griner var handtekin við komuna til Rússlands þann 17. febrúar síðastliðinn og sökuð um að reyna að smygla kannabisvökva inn í landið fyrir rafrettur.

Bandarísk yfirvöld hafa barist fyrir því að Griner verði sleppt úr haldi Rússa sem lögðu til á sínum tíma að Bandaríkjamenn myndu stunda við þá fangaskipti og leysa úr haldi Viktor Bout, Rússa sem var á sínum tíma dæmdur í 25 ára fangelsi fyrir vopnasölu til hryðjuverkahópa.

Griner hefur undanfarin ár leikið í Rússlandi á milli tímabila í WNBA-deildinni en hún hefur misst af fyrstu leikjum tímabilsins í WNBA, sterkustu deild heims í körfubolta.