Framkonur gerðu sér góða ferð norður og unnu 38-29 sigur á KA/Þór í fyrstu umferð Olís-deildar kvenna í dag á sama tíma og Stjarnan og ÍBV unnu fyrstu leiki sína.

Framarar sem þurftu að horfa á eftir öllum þremur titlunum til Valskvenna á síðasta tímabili voru lengi af stað og héldu Akureyringar í Fram í upphafi leiks.

Þegar líða tók á fyrri hálfleikinn náði Fram stjórn á leiknum og leiddi með sjö mörkum í hálfleik sem skóp sigurinn.

Það var minna um flotta sóknarburði þegar ÍBV vann 15-13 sigur á Aftureldingu í Eyjum þar sem Eyjakonur voru lengi að finna taktinn.

Mosfellingar leiddu 8-5 þegar mínúta var eftir af fyrri hálfleik en ÍBV tókst að snúa leiknum við og innbyrða sigurinn.

Í Hafnafirði voru Haukar með frumkvæðið stærstan hluta leiksins og náðu góðu forskoti snemma leiks en á lokasprettinum tókst Stjörnunni að skjótast fram úr.

Haukar leiddu með fjórum mörkum skömmu fyrir lok fyrri hálfleiks og komust 21-20 yfir á 53. mínútu en á lokamínútum leiksins náði Stjarnan 5-1 kafla sem skildi liðin að.