Fram tekur þriggja stiga forskot á Val á toppi Olís-deildar kvenna eftir 24-19 sigur á Val í Safamýrinni í elleftu umferð.

Eftir elleftu umferðina tekur við fimm vikna jólahlé en umferðinni lýkur með leik ÍBV og HK á morgun eftir að leik var frestað í dag.

Framarar byrjuðu leikinn í dag vel og náðu frumkvæðinu strax á upphafsmínútum leiksins. Fyrir vikið leiddi Fram lengst af en Valskonur voru ekki langt undan.

Með góðri rispu náði Fram þriggja marka forskoti undir lok fyrri hálfleiks en Valskonur náðu ekki að brúa bilið eftir það.

Valur réð ekkert við Kareni Knútsdóttur í dag þar sem Karen skilaði níu mörkum fyrir Fram en í liði gestanna var Sandra Erlingsdóttir atkvæðamest með fimm mörk.