„Að taka þátt í þessu hefur verið frábært, maður fær heilmargt út úr því að mæta þessum liðum og allt ferðalagið fer í reynslubankann, sama hver lokaniðurstaðan verður.

Maður sér talsverðan mun, við erum að þjappa hópnum vel saman eftir talsverðar breytingar undanfarin ár og þú kynnist liðsfélögunum og starfsfólkinu á annan hátt og myndar sterkari tengsl,“ segir Telma Ívarsdóttir, markvörður Breiðabliks, aðspurð hvernig það hafi verið að taka þátt í riðlakeppni Meistaradeildar Evrópu þegar verkefnið er hálfnað.

Blikar mæta WFC Kharkiv í seinni leik liðanna á Kópavogsvelli í kvöld eftir markalaust jafntefli liðanna í Úkraínu á dögunum og geta fylgt eftir fyrsta stiginu með fyrsta sigrinum í kvöld.

Öðruvísi haust að þessu sinni

„Það er gríðarlegur undirbúningur sem fer í hvern leik og við ætlum okkur að gera allt sem við getum til að fá þrjú stig. Við erum búin að fara vel yfir þeirra leik síðustu daga, hvað við gerðum vel í Úkraínu, hvað mátti fara betur og njótum góðs af því að fá strax aftur leik við þær.“

Þegar önnur félög eru flest að hefja undirbúningstímabil sitt hafa Blikar ekkert slegið af frá því í byrjun október þegar þær urðu bikarmeistarar. Þær hafa æft eins og á hefðbundnu tímabili og undirbúið sig fyrir stórleiki gegn félögum á borð við Real Madrid og PSG, á meðan aðrir leikmenn í efstu deild eru flestir að hvíla sig þegar það styttist í útihlaupin.

„Þetta er vissulega svolítið öðruvísi en áður,“ segir Telma létt í lundu og heldur áfram: „Vanalega er tímabilið búið í september en núna erum við að æfa á fullu, á þessum árstíma með tilheyrandi veðri og ferðalögum sem fylgja þessum leikjum. Við höfum sem betur fer verið heppnar með meiðsli þrátt fyrir að þessu fylgi talsvert meira álag.“

Lítið að velta sér upp úr því að spila erlendis

Telma tekur undir að þetta sé um leið ákveðinn gluggi fyrir leikmenn að sýna sig fyrir erlendum liðum en hefur ekkert velt slíkum möguleikum fyrir sér.

„Ég hef í raun lítið velt mér upp úr því. Það hafa skilaboð borist á netinu frá einstaklingum sem segjast vera umboðsmenn, en ég er ekkert að sýna því áhuga né velta mér upp úr því. Ef eitthvað gerist mun það koma inn á borð Breiðabliks og ég leyfi þeim að sjá um það. Þessir leikir í Meistaradeild Evrópu eru greinilega stór gluggi og það eru fjölmargir að horfa á leiki í riðlakeppninni.“

Telma er með óvanalegan bakgrunn sem markmaður en í viðtali við Heimavöllinn, hlaðvarp með áherslu á kvennaknattspyrnu, á dögunum, lýsti Telma því hvernig hún hefði í raun slysast í markið á unglingsaldri. Hún hefði verið framherji en leyst af í einum leik í marki og það hefði heillað Úlfar Hinriksson, þáverandi þjálfara U17 ára landsliðs Íslands, sem boðaði hana fljótlega á landsliðsæfingu sem markmann.

„Ég var að spila sem framherji með fjórða flokki en stökk til þegar það vantaði í markmannsstöðuna í þriðja flokki fyrir leiki gegn Gróttu og þar var Úlfar að fylgjast með á hliðarlínunni. Síðan í kjölfarið er ég valin í fyrsta sinn í yngri landsliðin sem markmaður, þó að ég hafi ekki vitað af því. Ég hélt alltaf að ég væri að fara sem útileikmaður,“ segir Telma við Fréttablaðið, þegar þessi saga er borin undir hana.

Býr að góðum grunni úr blaki

Austfirðingurinn á að baki 26 leiki fyrir yngri landslið Íslands og er í nýjasta landsliðshópi Íslands, en bíður eftir eldskírninni með A-liðinu. Hún segist njóta góðs af grunni frá því að hafa verið í ýmsum íþróttum á yngri árum, þá sérstaklega blaki.

„Maður var í öllum íþróttum á yngri árum, þar af lengi vel í blaki fyrir austan í Neskaupstað sem ég held að hafi hjálpað mér gríðarlega mikið.

Ég var í blaki til sextán ára aldurs sem gefur mér ákveðinn grunn og þegar ég lít til baka hefur þetta reynst ótrúlega mikilvægt í að tímasetja sig sem markmaður.“

Þurfti að venjast því að nota linsur

Annað sem breyttist við komuna í yngri landslið Íslands var að Telma þurfti að venjast því að leika með linsur og hætta að notast við gleraugu. Hún kannast við sögu af því þegar henni var haldið niðri af þjálfarateyminu í landsliðsferð til að koma linsunum á sinn stað.

„Mikið rétt, Ásta (Árnadóttir) sjúkraþjálfari, var einmitt að rifja þetta upp skellihlæjandi í síðasta landsliðsverkefni þegar hún og Úlfar voru að aðstoða mig. Þegar ég kom fyrst í landsliðið var ég með gleraugu en Úlfar var fljótur að benda mér á að það gengi ekki og væri í raun hættulegt.

Ég fékk mér fljótlega linsur en var ekki alveg viss hvernig ætti að setja þær í svo að Úlfar og Ásta þurftu að hjálpa mér í fyrsta landsliðsverkefninu. Ég man ekki hvort þeirra hélt mér niðri og hvort þeirra setti linsurnar í,“ segir hún kímin.

Ég var í blaki til sextán ára aldurs sem gefur mér ákveðinn grunn og þegar ég lít til baka hefur þetta reynst ótrúlega mikilvægt í að tímasetja sig sem markmaður.

Telma var aðeins sextán ára þegar hún samdi við Breiðablik árið 2015 og fékk tækifærið sem aðalmarkvörður Blika á síðasta ári, eftir að hafa leikið víða á láni þar áður.

„Þegar ég horfi til baka núna er ég ótrúlega ánægð með hvað ég var þolinmóð og valdi rétt á sínum tíma. Öll þessi ár og lið eiga hlut í þeirri frammistöðu sem ég er að sýna núna,“ segir Telma og segir fjölskyldu sína eiga stóran þátt í velgengninni.

„Auðvitað er ég stolt og um leið mjög þakklát foreldrum mínum og ömmu minni sem studdu við bakið á mér að flytja suður til þess að komast í betra lið. Það var ekki auðvelt að flytja að heiman sextán ára og alls ekki sjálfgefið, en fyrir vikið er ég ofboðslega þakklát þeim fyrir stuðninginn“