Það verður nóg að gera hjá varnarlínu kvennalandsliðsins að halda aftur af Vivianne Miedema og stöllum í hollenska landsliðinu þegar liðin mætast í kvöld. Miedema hefur skorað 21 mark í síðustu tólf leikjum.

Miedema, Shanice van de Sanden og Lieke Martens mynda ógnarsterkt sóknarþríeyki hjá Evrópumeisturum Hollands þar sem Miedema leiðir línuna.

Sóknarmaðurinn Miedema hefur verið iðinn við kolann undanfarnar vikur en hún hefur skorað í ellefu af síðustu tólf leikjum með Arsenal og hollenska landsliðinu og sex leikjum í röð með Hollandi.

Hún var markahæsti leikmaður Ólympíuleikanna eftir að hafa skorað tíu mörk í fjórum leikjum og skoraði tvö mörk í æfingarleik fyrir mótið.

Þá hefur Miedema skorað níu mörk í sex leikjum fyrir Arsenal á undanförnum vikum sem þýðir að hún hefur alls skorað 21 mark í síðustu tólf leikjum fyrir félags- og landslið.