Handboltasamband Íslands, HSÍ, mun ákveða á mánudaginn næstkomandi hvert framhaldið verður í deildarkeppnunum sem spilaðar á vegum sambandsins.

Haldinn verður fundur hjá stjórn HSÍ í hádeginu á mánudaginn og svo fundur með formönnum félaganna sem eru innan sambandsins síðdegis þann sama dag.

Stjórn HSÍ ákvað á fundi sínum á miðvikudaginn að á þessum fundum sem haldnir verða á mánudaginn kemur verði tekin ákvörðun um hvort og þá hvernig haldið verður áfram að spila í deildunum.

Hlé var gert á öllum deildum HSÍ 13. mars síðastliðinn. Nú liggur fyrir að samkomubann verður á Íslandi til 4. maí næstkomandi hið minnsta.

Fjölnir og HK eru nú þegar fallin úr Olísdeild karla og Afturelding úr Olísdeild kvenna. Valur trónir á toppnum karlamegin en Fram kvennamegin. Hvorugt liðið hefur tryggt sér deildarmeistaratitilinn en Framkonur þurfa einn sigur í viðbót til þess að landa þeim titli.

Þór Akureyri hefur tryggt sér sæti í efstu deild karla á næstu leiktíð en ekki liggur fyrir hvaða lið ætti að fylgja þeim þangað. Þá liggur ekki fyrir hvaða lið færast upp á milli deilda auk Aftureldingar í kvennaflokki. Þá er spurnig hvort og með hvaða hætti úrslitakeppni verður haldin í efstu deildum karla og kvenna.