Framkonur gengu frá leiknum snemma í 31-20 sigri á HK í 15. umferð Olís-deildar kvenna í kvöld á sama tíma og Haukar og Stjarnan skildu jöfn á Ásvöllum 25-25 í bráðfjörugum leik.

Það var ljóst að verkefnið yrði erfitt fyrir HK gegn ríkjandi Íslandsmeisturunum í Safamýrinni og náði Fram snemma góðu forskoti.

Munurinn var kominn upp í níu mörk í hálfleik og bætti Fram við forskot sitt þegar líða tók á seinni hálfleikinn eftir að forskotið fór niður í sex mörk um tíma.

Ragnheiður Júlíusdóttir var markahæst í liði Fram með sjö mörk líkt og Díana Kristín Sigmarsdóttir sem var atkvæðamest hjá liði HK.

Í Hafnarfirði fengu bæði liðin fjölmörg færi til að stela sigrinum en hvorugu liði tókst að koma boltanum í netið á síðustu fimm mínútum leiksins í jafntefli.

Leikurinn var jafn og spennandi allt frá fyrstu mínútu og skiptust liðin á forskotinu allan leikinn en munurinn var aldrei meira en tvö mörk.

Maria Ines da Silva Pereira fór fyrir liði Hauka með níu mörk en hjá gestunum var Stefanía Theodórsdóttir drjúg með sex mörk úr sjö skotum.