Jón Þórir Sveinsson hefur verið ráðinn nýr þjálfari karlaliðs Fram í fótbolta. Hann skrifaði undir þriggja ára samning við félagið. Þetta kemur fram á heimasíðu Fram.

Jón Þórir lék lengst af leikmannaferilsins með Fram, alls 312 leiki. Hann varð þrisvar sinnum Íslandsmeistari og þrisvar sinnum bikarmeistari með Fram á 9. áratugnum.

Síðasta árið hefur Jón Þórir þjálfað 3. flokk karla hjá Fram. Hann var áður aðstoðarþjálfari karlaliða Fram og Fylkis.

Jón Þórir tekur við þjálfarastarfinu hjá Fram af Pedro Hipólito sem hætti eftir síðasta tímabil. Fram hefur endað í 9. sæti Inkasso-deildarinnar undanfarin tvö ár.

„Það er stefna knattspyrnudeildar FRAM að halda áfram að byggja á ungum og efnilegum leikmönnum félagsins sem fá tækifæri til að byggja sig upp, vaxa, dafna og þroska sinn leik á sama tíma og liðið verður styrkt með leikmönnum sem falla að hugmyndafræði félagsins. Markmiðið er að sjálfsögðu að FRAM verði aftur í hópi hinna bestu liða í efstu deild á nýjum og glæsilegum heimavelli félagsins í Úlfarsárdal. Jón Sveinsson mun gegna lykilhlutverki í þessu starfi á komandi árum og knattspyrnudeild FRAM bindur miklar vonir við störf Jóns fyrir félagið,“ segir á heimasíðu Fram.