Fram og Valur unnu bæði sína leiki í toppbaráttu Olís-deildar kvenna þótt að Framarar hafi átt í stökustu vandræðum gegn Selfyssingum í 25-24 sigri.

Valur heldur því eins stiga forskoti á toppi deildarinnar en á sama tíma vann HK óvæntan sigur á Haukum á heimavelli.

Nýkrýndir bikarmeistarar Vals voru ekkert að slaka á klónni þegar KA/Þór kom í heimsókn því Valsliðið leiddi með tíu mörkum í hálfleik 16-6. 

Þórsurum tókst að finna lausnir á öflugum varnarleik Vals í þeim síðari en áttu fá svör við sóknarleik Vals í 30-18 sigri Valskvenna.

Það virtist eitthvað sitja í Framkonum að hafa tapað bikarmeistaratitlinum því þær voru skrefinu á eftir Selfossi stærstan hluta leiksins í kvöld.

Selfoss sem hefur aðeins unnið einn leik í vetur var þremur mörkum yfir þegar tuttugu mínútur voru til leiksloka en Fram tókst að ná forskotinu með öflugum lokasprett.

Þá vann HK fjórða sigurinn í vetur þegar þær tóku á móti Haukum í Digranesinu 26-22 þar sem HK leiddi frá upphafsmínútum leiksins og til loka.

Með sigrinum er HK komið með níu stig, tveimur stigum á eftir Stjörnunni en þessi lið mætast í næstu umferð.