Sjö leikir fara fram í undankeppni Evrópumótsins í knattspyrnu karla í kvöld. Tvö lið geta tryggt sér sæti í lokakeppni mótsins með hagstæðum úrslitum í leikjum sínum í kvöld.

Úkraína trónir á toppi B-riðils með 16 stig en liðið fær Portúgal sem er í öðru sæti riðilsins með 11 stig í heimsókn á Ólympíuleikvanginn í Kiev.

Úkraínumönnum nægir stig í þeim leik en Serbar eru í þriðja sæti riðilsins með sjö stig og fara Portúgalar langleiðina með að fá tækifæri til þess að verja Evrópumeistaratitilinn með sigri í Kænugarði.

Frakkland mun komast áfram upp úr H-riðlinum þar sem íslenska liðið leikur með sigri gegn Tyrklandi í leik liðanna í París. Sigur myndi líka koma íslenska liðinu afar vel.

Fjögur lið eru komin inn á Evrópumótið en það eru Pólland úr G-riðli, Belgía og Rússland úr I-riðli og síðan Ítalía úr J-riðli. Alls munu 24 lið keppa á mótinu sem spilað verður víðs vegar um Evrópu næsta sumar.