Fótbolti

Frakkar ­heppnir að ná jafn­tefli gegn Strákunum okkar

Íslenska karlalandsliðið í knattspyrnu var grátlega nálægt því að ná sigri gegn ríkjandi heimsmeisturum Frakka ytra í vináttuleik í gær. Ein stærsta stjarna knattspyrnuheimsins bjargaði Frakklandi fyrir horn.

Alfreð og Birkir fagna marki Birkis í upphafi leiks. Fréttablaðið/Afp

Íslenska karlalandsliðið í knattspyrnu sýndi sitt rétta andlit í gær í 2-2 jafntefli gegn ríkjandi heimsmeisturum Frakklands. Á lokamínútum leiksins tók ungstirnið Kylian Mbappé leikinn í eigin hendur, jafnaði metin og sýndi af hverju hann er talinn vera einn besti leikmaður heims þrátt fyrir að vera aðeins nítján ára gamall.

Munaði aðeins nokkrum mínútum á því að Ísland hefði sigrað leikinn og um leið skemmt sigurhátíð Frakka. 

Hefði það verið fyrsti sigur Íslands gegn Frakklandi í þrettán tilraunum en við bíðum enn eftir sigri Íslands.

Fyrstu sextíu mínútur leiksins voru einfaldlega fullkomnar af hálfu Íslands. Frakkar voru kærulausir, flatir og virtust ekki vera tilbúnir að mæta Íslandi af sömu hörku og Íslendingar sýndu. 

Sjá einnig: „Ég hef trú á að við getum unnið Sviss“

Þrír af reynslumestu leikmönnum hópsins komu inn í liðið á ný, Jóhann Berg Guðmundsson, Alfreð Finnbogason og maður leiksins, Kári Árnason. 

Þá komu Rúnar Alex Rúnarsson, Hólmar Örn Eyjólfsson og Arnór Ingvi Traustason inn í liðið, nýttu tækifærið vel og sýndu að þeir væru tilbúnir ef kallið kæmi. 

Það lék þó enginn betur á vellinum en Kári sem verður 36 ára á morgun. Hann var að leika sinn 80. leik og kórónaði frábæran leik þegar hann skoraði annað mark leiksins með skalla í upphafi seinni hálfleiks.

Ísland virtist ætla að standast áhlaup Frakka, hér verst Kári hetjulega gegn sókn Frakklands. Fréttablaðið/AFP

Það sást strax í upphafi leiks hvað Jóhann og Alfreð færa liðinu sóknarlega, meiri ró og betri sóknir. Skapaði Alfreð fyrsta mark leiksins þegar hann vann boltann hátt á vellinum, leit upp og valdi hárréttan kost, Birkir Bjarnason kom aðvífandi og afgreiddi færið snyrtilega framhjá Hugo Lloris. 

Frakkar voru slegnir út af laginu við þetta enda virtist viðhorf þeirra vera að Ísland væri mætt til að taka þátt í sigurhátíð þeirra. Þrátt fyrir að vera mun meira með boltann fengu þeir vart færi gegn sterkri vörn Íslands.

Sjá einnig: Gylfi Þór: Bæði lið að spila á 80 prósentum

Kári minnti svo á gæði sín í föstum leikatriðum í upphafi seinni hálfleiks þegar hann stangaði hornspyrnu Gylfa Þórs Sigurðssonar í netið. Aftur virtust Frakkar einfaldlega vera gáttaðir á stöðunni.

Didier Deschamps brást við þessu með því að blása til sóknar sem virtist ekki ætla að fá á íslensku vörnina fyrr en á lokamínútum leiksins.

Rúnar Alex lék vel í fyrri hálfleik og lokar hér á Florian Thauvin, miðjumann franska landsliðsins. Fréttablaðið/AFP

Ísland missti boltann í sama horni og fyrsta mark Íslands kom upp úr, Mbappé fékk boltann og hættuleg fyrirgjöf hans fór af Hannesi í Hólmar og þaðan í netið.

Það gaf Frökkunum trú og skyndilega tók völlurinn og stuðningsmennirnir við sér. 

Óþarfa vítaspyrna gaf svo Frökkunum jöfnunarmark sem þeir áttu alls ekki skilið á 90. mínútu eftir hetjulega frammistöðu Íslands. 

Jafntefli staðreynd og ótrúlegt að upplifa svekkelsi með stig gegn jafn sterku liði.

Erik Hamrén fékk jákvætt svar í leik liðsins við spurningunum sem voru við leikmannahópinn í aðdraganda leiksins gegn Sviss á mánudaginn eftir útreiðina í St. Gallen í síðasta mánuði. 

Hann getur tekið heilmargt jákvætt úr þessum leik í aðdraganda leiksins á Laugardalsvelli á mánudaginn.

Athugasemdir

Auglýsing
Auglýsing

Tengdar fréttir

Fótbolti

Jón Dagur sá rautt

Fótbolti

Nani að semja við lið í MLS

Fótbolti

Juventus unnið 21 af 24 leikjum

Auglýsing

Nýjast

Stjarnan sigursælust

Börsungar nánast öruggir með toppsætið

Sárt tap í bikarúrslitum

Frábær seinni hálfleikur Swansea

Úlfarnir í 8-liða úrslit í fyrsta sinn í 16 ár

„Vorum að vinna frábært lið í dag“

Auglýsing