Frakkland vann öruggan 29-23 sigur þegar liðið mætti Danmörku í fyrsta leiknum í milliriðli 1 í Evrópumótinu sem fram fer í Frakklandi þessa dagana.

 Franska liðið komst þar af leiðandi upp að hlið Rússlands, en liðin hafa hvort um sig fjögur stig á toppi riðilsins.

Svartfjallaland blandaði sér svo í baráttuna um sæti í undanúrslitum mótsins með 30-28 sigri á móti Svíþjóð. Eftir þennan sigur svartfellska liðsins eru Svartfjallaland, Svíþjóð, Serbía og Danmörk hvert um sig með tvö stig í milliriðli 1.

Noregur sem leikur undir stjórn Þóris Hergeirssonar og á titil að verja hefur leik í milliriðli 2 í dag. Þar mætir norska liðið, sem fór inn í milliriðilinn án stiga, Ungverjalandi sem hefur tvö stig fyrir leikinn.

Noregur þarf að vinna alla sína þrjá leiki og treysta auk þess á það að Rúmenía hafi betur í öllum sínum leikjum til þess að komast í undanúrslit.

 Spánn, sem er líkt og Noregur án stiga áður en milliriðillinn hefst, leikur svo við Þýskaland í hinum leik dagsins í milliriðli 2. Þýskaland er með tvö stig fyrir þennan leik.