Frakkland fór með 2-0 sigur af hólmi þegar liðið mætti Íslandi í lokaumferð í riðlakeppni Evrópumóts U-21 árs landsliða. Frakkar fylgja þar af leiðandi Dönum í átta liða úrslit mótsins en Ísland lýkur leik án stiga.

Íslenska liðið var þétt og fast fyrir í varnarleiknum sínum en þrátt fyrir það náði franska liðið að finna leið framhjá Elíasi Rafni Ólafssyni, markverði Íslands, eftir rúmlega stundarfjórðungs leik.

Matteo Guendouzi, fyrirliði Frakklands, sem lék sem lánsmaður frá Arsenal hjá Herthu Berlin á síðasta keppnistímabili rak þá smiðshöggið á laglega sókn franska liðsins.

Odsonne Edouard, framherji skoska liðsins Celtic, slapp svo í gegnum íslensku vörnina undir lok fyrri hálfeik og klárið færið afar smekklega.

Mikael Neville Anderson fékk fínt færi í upphafi seinni hálfleiks eftir góðan undirbúning Brynjólfs Andersen Willumssonar en skot Mikaels var varið.

Lið Íslands var þannig skipað í leiknum: Elías Rafn Ólafsson - Róbert Orri Þorkelsson, Ari Leifsson (f) (Alex Þór Hauksson '86), Finnur Tómas Pálmason - Kolbeinn Birgir Finnsson (Hörður Ingi Gunnarsson '86), Kolbeinn Þórðarson (Þórir Jóhann Helgason '74), Andri Fannar Baldursson, Mikael Neville Anderson Valgeir Lunddal Friðriksson - Valdimar Þór Ingimundarson (Bjarki Steinn Bjarkason '74), Brynjólfur Andersen Willumsson (Stefán Teitur Þórðarson '86).

Allir leikmenn í leikmannahópi íslenska liðsins fyrir utan markvörðinn Hákon Rafn Valdimarsson fengu að spila í riðlakeppni lokamótsins sem fram hefur farið í Györi í Ungverjalandi síðustu vikuna tæpa.