Albert Brynjar Inga­son, frændi íslenska knattspyrnumannsins Alberts Guðmundssonar sem var á dögunum ekki valinn í íslenska landsliðið, reyndi að koma frá sér hlið knattspyrnumannsins í samskiptum hans við landsliðsþjálfara íslenska landsliðsins í þættinum Dr. Football í dag.

Þar rakti Albert sögu frænda síns í landsliðinu frá því árið 2022 þegar að brotalamir fóru að gera vart um sig í samskiptum Alberts og Arnars Þórs Viðarssonar, landsliðsþjálfara Íslands.

„Sko, hingað til hefur hlið Arnars bara verið í um­ræðunni. Ég ætla að fara yfir þessa at­burða­rás og eigna mér míkró­fóninn núna, það er komið að þol­mörkum hjá mér," sagði Albert Brynjar um mál Alberts en hingað til hefur Albert ekki tjáð sig við fjölmiðla um málið en fyrr í dag gaf faðir hans, Guðmundur Benediktsson frá sér fyrirlýsingu.

„Þetta byrjar á því að þjálfararnir taka video fund og drulla yfir hann fyrir að fara inn á völlinn sem kantari,“ segir Albert Brynjar um það hvernig vandamálin milli Alberts og Arnars hafi byrjað. „Þeir sem fylgjast með Albert með fé­lags­liði vita að hann vill fara inn á völlinn. Í kjöl­farið fer Albert á fund með þjálfurunum og segist vilja fá tæki­færi mið­svæðis þar sem hans hæfi­leikar nýtast best. Svarið frá þjálfaranum var hart nei, að honum væri ekki treystandi þar. Að hann líti of stórt á sig og væri of góður með sig, þarna fer þjálfarinn í per­sónuna en ekki leik­manninn.“

Albert Brynjar, sem hefur sjálfur nýlagt knattspyrnuskóna á hilluna, segir þetta ekki góð samskipti milli þjálfara og leikmanns.

„Beint eftir þennan fund er æfing þar sem Albert er pirraður. Hann var með hangandi haus, þjálfarinn tekur upp æfinguna og boðar til fundar þar sem hann er búinn að klippa til Albert. Spyr svo yfir hópinn hvort ein­hver sjái eftir þessari æfingu, enginn segir neitt og þá tekur hann Albert fyrir.“

Í næsta landsliðsverkefni, leikjum gegn Albaníu og Ísrael hafi Albert síðan fengið fá tækifæri í landsliðinu. Það var í leiknum gegn Ísrael sem Albert hafi fengið nóg.

„Eftir þennan leik var Albert pirraður og yfir­gefur liðið fljót­lega eftir að leikurinn var búinn. Í kjöl­farið er Arnar svo spurður út í Albert og svarar því að þetta sé ekki satt. Að hann hafi ekki farið í neitt rifrildi við Albert.“

Nokkrum mánuðum var Albert ekki valinn í landsliðið. Arnar Þór, landsliðsþjálfari sagði hann ekki hafa rétt hugarfar fyrir landsliðið. Svo líði mánuðirnir.

Það yrðu engin leiðindi

„Ef þjálfari er ó­sáttur við leik­mann þá gerir maður ráð fyrir því að hann ræði við leik­manninn á þessum tíma. Svo er það komið á alla miðla fyrir næsta verk­efni að Albert sé ekki í hóp. Nokkrum klukku­stundum áður en hópurinn er kynntur hringir Arnar í hann og segir að þetta sé út af hugar­farinu hans, að hann sé ó­sáttur með það. Hann endar sím­talið á því að segja að hann ætti að hringja í hann og láta vita þegar hann gæfi aftur kost á sér. Albert sagðist alltaf gefa kost á sér.“

Svo hafi málin þróast þannig að Albert spilar virki­lega vel í félagsliði sínu Genoa á Ítalíu og út frá því hafi komið pressa á Arnar að velja hann í landsliðið.

„Arnar hringir, hann opnar sím­talið á að segjast vera svekktur að hafa ekki hringt. Þeir ræða þetta verk­efni, Albert spyr hvort hann sé með hlut­verk. Arnar viður­kennir að það sé ekki í fyrri leiknum en mögu­lega í þeim seinni, Albert út­skýrir þá stöðu sína með fé­lags­liði þar sem hann á mánaðar gamalt sem hann hefur hitt í hálfan sólar­hring. Hann myndi því frekar for­gangs­raða því og það virtist vera skilningur frá þjálfaranum.“

Arnar hafi sagt við Albert að hann ætli að vinna þetta vel með fjöl­miðla­full­trúa KSÍ til að það verði enginn leiðindi.

„Hann gefur það svo út að Albert sé ekki til í að vera á sömu for­sendum og aðrir. Að hann vilji bara vera ef hann byrjar báða leiki, það eru ekki for­sendur Alberts.“

Segir Arnar ráðast á persónuna

Að mati Alberts Brynjars hefði þjálfarinn getað sagt frá fjöl­skyldu­að­stæðum leikmannsins.

„En hann ræðst á per­sónuna og hann sem liðs­mann. Hann hendir leik­manninum undir rútuna og lætur spjótin beinast að honum. Lands­liðs­þjálfarinn talar um að vera fag­legur, leik­maðurinn sem hefur ekki tjáð sig eða þjálfarinn sem setur út á hugar­far leik­mannsins. Hann veit að for­sendur Alberts eru fjöl­skyldu­að­stæður.“

Albert Brynjar segir að frændi sinn hafi viljað vita hlut­verkið og hvernig hann skildi verja tíma sínum á næstunni.

„Hann þurfti að vita hlut­verkið, hann missti af fæðingu barnsins. Er ég að fara að nýta þessa daga í eitt­hvað, er ég að fara í tíu daga að æfa lítið og vera ekki í neinu hlut­verki. Þegar ég talaði við Albert þá sagði hann að sím­talið hefði gengið vel. Hann hlakkaði til að sjá hvað kæmi út. Mér finnst staðan vera þannig að Arnar vill ekki nota hann, ég held að Albert vilji ekki spila undir hans stjórn. Að ráðast á alltaf per­sónuna, hann er ekki partur af verk­efninu. Máli lokið.“

Hlusta má á umræddan þátt Dr. Football í heild sinni hér fyrir neðan: