„Sigurinn er ekki unninn enn en það var mikið fagnaðarefni að sjá að þetta og léttir að þetta sé komið upp á borðið. Við hjá Frjálsíþróttasambandinu höfum verið í sérstakri stöðu því hvorki ríki né borg hefur til þessa verið tilbúið að gefa það út hvað ætti að gera til frambúðar. Miðað við yfirlýsingar Lilju Alfreðsdóttur, mennta- og menningarmálaráðherra, og nú hjá borginni, þá sé ég ekki annað en það sé líkleg niðurstaða að reynt verði að leysa vandamál okkar með nýjum þjóðarleikvangi fyrir frjálsar íþróttir,“ segir Freyr Ólafsson, formaður FRÍ, aðspurður út í starfshópinn sem á að mynda um þjóðarleikvang fyrir frjálsar íþróttir.

Málið var rætt á borgarráðsfundi fyrir helgi þar sem lagt var til að Reykjavíkurborg myndi tilnefna fulltrúa í hópinn.

„Eftir þetta geta menn varla frestað því að taka ákvörðun mikið lengur. Þetta er búið að sitja á hakanum í mörg ár en nú ættu öll gögn að koma fram. Það hefur verið talað um innviðauppbyggingu og það er óskandi að þetta yrði innan þess. “

Samkvæmt tilvísun mennta- og menningarmálaráðuneytisins er starfshópnum ætlað að vinna forvinnu til að afla upplýsinga um þarfir fyrir mannvirki til lengri tíma, skoða nýtingarmöguleika og hvort að mannvirki sem eru til staðar gætu nýst í þetta eða hvort að þörf sé á nýju mannvirki til að geta staðið fyrir alþjóðlegum keppnum. Þá mun starfshópurinn skoða kostnað ríkis og borgar af rekstri og uppbyggingu vallarins og er von á niðurstöðum 1. apríl næstkomandi.

„Kröfurnar okkar eru í raun bara að hafa ásættanlega aðstöðu til æfinga og keppni fyrir frjálsar íþróttir. Þegar alþjóðlegar keppnir fara fram er kostur að vera skammt frá öðrum íþróttavelli. Í því samhengi eru vísbendingar um að það myndi henta vel að hafa völlinn við Laugardalshöll, ef hann á að vera í borginni.“

Aðspurður hvort önnur sveitarfélög en Reykjavík hafi komið til greina segir Freyr að fyrst þurfi að koma niðurstaða um framtíð Laugardalsvallar.

„Við höfum bara í rauninni verið að bíða eftir svari ríkis og borgar. Að þau myndu staðfesta Laugardalsvöll sem núverandi þjóðarleikvang í frjálsum íþróttum til framtíðar eða að segja okkur að það verði farin önnur leið sem mér sýnist að eigi að fara. Við höfum í rauninni ekki haft neitt í höndunum um að við séum líklegast að flytjast á annan stað fyrr en núna. Við vitum af áhuga innan Breiðabliks að fá þjóðarleikvang í frjálsum íþróttum í Kópavog en þetta veltur allt á því hvaða sveitarfélag er tilbúið að standa undir þessu.“

Raunveruleiki FRÍ er sá sami og annarra minni sérsambanda. Keppnisaðstæður á Íslandi standa ekki undir kröfum þess að halda alþjóðleg mót.

„Við erum í rauninni ekki með neinn völl í Reykjavík núna og höfum þurft að afþakka boð um að hýsa alþjóðleg mót. Það er vilji fyrir því að halda þessi mót en við erum ekki með aðstöðuna til þess,“ segir Freyr og heldur áfram:

„Ástandið hefur í raun aldrei verið verra en í ár, það er enginn völlur í Reykjavík sem er í lagi. Það stóðu framkvæmdir yfir á Laugardalsvelli og völlurinn í Mjódd var ekki tilbúinn. Reykjavíkurborg bjargaði okkur með því að opna frjálsíþróttahöllina í Laugardal í sumar,“ segir Freyr sem útilokar ekki áframhaldandi samstarf við KSÍ um þjóðarleikvang.

„Ef það finnst hagstæð lausn á Laugardalsvelli fyrir báðar íþróttir væri hægt að lifa við það en það er bara spurning hvað er besti möguleikinn. “

Innan FRÍ hefur sá möguleiki verið ræddur að völlurinn yrði að einhverju leyti opinn almenningi til afnota.

„Hvar sem við verðum kemur til greina að völlurinn verði opinn almenningi, að almenningur geti komið inn og æft við frábærar aðstæður. Það fara ekki margir dagar árlega í það sem ætlast er til af vellinum og það þarf að hugsa hvernig hann nýtist sem best.“

Freyr Ólafsson, formaður Frjálsíþróttasambands Ísland.