„Það var mikil gleði og um leið léttir þegar þetta var í höfn. Maður var þannig séð tiltölulega rólegur þegar lokaflautið gall, enda nægur tími til að ná þessu upp á eigin spýtur, en það var um leið mikið fagnaðarerindi þegar við fengum fréttirnar af Seltjarnarnesi og við vorum komnir upp,“ segir Jón Þórir Sveinsson, þjálfari Fram, aðspurður hvernig tilfinningin hafi verið að koma Fram upp í efstu deild að nýju eftir sjö ár í næstefstu deild.

Sigur Gróttu á Kórdrengjum á fimmtudaginn gerir það að verkum að aðeins ÍBV getur náð Fram að stigum þegar fimm umferðir eru eftir. Framarar hafa verið óstöðvandi í næst efstu deild það sem af er tímabils, unnið fimmtán leiki af sautján, gert tvö jafntefli, skorað flest mörk og fengið fæst á sig.

Undir lok síðasta árs fóru Framarar með mál fyrir dómstól KSÍ vegna þess sem þeir töldu galla á reglukerfi KSÍ eftir að ákvörðun var tekin um að flauta Íslandsmótið af. Leiknir og Fram voru með sama stigafjölda þegar ákvörðun var tekin í ljósi þess að ekki var talið að hægt yrði að leika síðustu umferðirnar vegna sóttvarnaaðgerða.

Stjórn Fram kærði ákvörðun KSÍ á grundvelli þess að ekkert stæði í regluverkinu um að beitt yrði markatölu ef lið yrðu jöfn að stigum en aga- og úrskurðarnefnd og síðar áfrýjunarnefnd KSÍ höfnuðu beiðni Framara. Aðspurður segir Jón að hópurinn hafi lítið velt sér upp úr því hvernig dómsmálið fór fram.

„Það var ekkert stórkostlegt vandamál að taka þessari ákvörðun þegar hún var tekin. Við ræddum það strax, þjálfarar og leikmenn, að við þyrftum að spila áfram í næst efstu deild og áttum ekki von á því að þessu yrði haggað. Um leið leyfðum við stjórn félagsins að leita réttar síns og kanna lögmæti ákvörðunarinnar sem var sjálfsagt,“ segir Jón og heldur áfram:

„Þegar litið er til baka er eina klúðrið í þessu í raun að það stóð ekkert í reglugerðinni um hvað skyldi gera ef lið væru jöfn að stigum. Það er ekkert óeðlilegt að þessi leið sé farin og hún er alla jafna notuð en það stóð ekkert um hana, bara að reiknað yrði út frá meðaltali stiga.“

Aðspurður hvort að það hafi skotið upp í kollinum þegar núverandi bylgja hófst hvort að sagan væri að endurtaka sig, sagði Jón að það hefði aldrei vakið ótta.„Þessi umræða kom aldrei upp. Þessi hugmynd skaust upp í kollinn hjá mér á einum tímapunkti, hversu mikið þyrfti að spila til viðbótar til að mótið myndi standa, en þetta var ekkert að valda manni neinum áhyggjum.“

Karlalið Fram leikur því í deild þeirra bestu að nýju á næsta ári, átta árum eftir að félagið féll úr efstu deild. Jón sem er einn leikjahæsti leikmaður í sögu Fram með 312 leiki og tók við liðinu fyrir þremur árum, tekur undir að það sé léttir að koma félaginu aftur meðal þeirra bestu.

„Það eru komin nokkur ár, alltof mörg að mati Framara, síðan við féllum og það voru margir stoltir í stúkunni að fylgjast með okkur. Þegar ég tók við keflinu var markmiðið að koma liðinu upp í efstu deild áður en nýr heimavöllur yrði tekinn í notkun og það tókst. Um leið er ákveðið fagnaðarerindi að hafa náð þessu afreki í Safamýrinni. Við tókum ákvörðun að færa leiki okkar af Laugardalsvelli yfir í Safamýrina þegar ég tók við liðinu og það reyndist mikið heillaskref,“ segir Jón og heldur áfram:

„Nú tekur við nýtt upphaf, kaflaskil í sögu félagsins þegar við flytjumst upp í Úlfarsárdal. Félagið hefur verið með starfsemi þar undanfarin ár og stór hluti iðkenda félagsins er búsettur þar. Það verður gaman að reyna að mynda stemningu þar í efstu deild.“

Fram á enn möguleika á því að bæta stigametið í tólf liða 1. deild, 54 stig, í eigu Víkings frá Ólafsvík, en til þess þarf Fram átta stig eða meira úr síðustu fimm leikjum sínum. Þá gæti Fram leikið eftir afrek Breiðabliksliðsins frá 2005, sem tapaði ekki leik á tímabilinu.

„Fyrst og fremst er ég gríðarlega stoltur af strákunum. Þeir hafa fengið ýmis erfið verkefni en þeir hafa leyst þau öll með algjörum sóma. Við vorum alltaf ákveðnir að vinna deildina eftir vonbrigði síðasta árs, ekki láta annað sætið duga. Við þurfum einhver stig til viðbótar en um leið viljum við halda áfram á jákvæðu nótunum og ganga stoltir frá borði í lok tímabilsins,“ segir Jón.