Karen Knútsdóttir, leikmaður íslenska landsliðsins, sagði að áhersla hefði ekki verið lögð á að ná úrslit en það hafi verið svekkjandi að tapa á þennan hátt eftir 25-26 tap gegn Svíþjóð í kvöld.

„Þetta er sérstök tilfinning, við ætluðum ekki að horfa mikið á úrslitin enda að mæta einu besta liði heims en þegar leikurinn spilast svona er þetta gríðarlega svekkjandi þótt að þetta hafi verið æfingarleikur,“ sagði Karen sem sá ýmislegt jákvætt í leiknum.

„Áætlunin var að stilla saman strengina, herða vörnina sem gekk vel og markvarslan var flott. Sóknarleikurinn var betri en oft áður, við höfum átt í erfiðleikum sóknarlega og það var ákveðinn sigur fyrir liðið hvað það gekk vel í sóknarleiknum þótt að við höfum tapað í tölum.“

Íslenska liðið náði að setja fimmtán mörk á Svíana í fyrri hálfleik.

„Það hafa komið leikir inn á milli þar sem sóknarleikurinn er góður en hann hefur verið okkar akkelisarhæll í gegnum tíðina. Það vantaði aðeins að keyra upp hraðann í seinni hálfleik, við erum full sveiflukenndar en við erum að vinna í því,“ sagði Karen og bætti við:

„Heilt yfir var þetta góð frammistaða og ég er stolt af stelpunum eftir undanfarna leiki. Yngri stelpurnar eru komnar í stærra hlutverk og við erum farnar að láta þetta rúlla betur enda farnar að þekkjast betur.“

Framundan er annar leikur gegn Svíþjóð en þetta er liður í undirbúning Íslands fyrir undankeppni HM í nóvember.

„Við erum að reyna að byggja upp fyrir það og það verður stórt próf þegar við mætumst á ný á laugardaginn. Þá eru þær búnar að liggja yfir spilamennskunni okkar og ekki að renna jafn mikið blint út í sjóinn. Næsti leikur verður stóra prófið okkar.“