Swansea City er komið í 8-liða úrslit ensku bikarkeppninnar annað árið í röð eftir 4-1 sigur á Brentford á Liberty-vellinum í dag.

Kolbeinn Finnsson sat allan tímann á varamannabekk Brentford sem náði forystunni á 28. mínútu þegar Ollie Watkins skoraði. Staðan var 0-1 í hálfleik, Brentford í vil.

Í seinni hálfleik voru Svanirnir miklu sterkari og keyrðu gestina í kaf. Luke Daniels (sjálfsmark), Daniel James, Bersant Celina og George Byers skoruðu mörk Swansea.

Crystal Palace er einnig komið í 8-liða úrslit eftir sigur á Doncaster Rovers á útivelli, 0-2.

Jeffery Schlupp og Max Meyer skoruðu mörk Palace í fyrri hálfleik.

Auk Swansea og Palace eru Watford, Brighton, Millwall, Manchester City og Wolves komin í 8-liða úrslit bikarkeppninnar.