Ísland bar sigurorð af Danmörku 25-22 þegar liðin mættust á heimsmeistaramótinu í handbolta karla hjá leikmönnum 21 árs og yngri á Spáni í dag.

Þetta var fjórði leikur íslenska liðsins í riðlakeppni mótsins en liðið hefur haft betur gegn Síle, Argentínu og nú Danmörku og tapað fyrir Noregi.

Íslenska liðið var 13-10 yfir í hálfleik og náði mest sex marka forystu 22-16 um miðbik seinni hálfleiks. Niðurstaðan var svo þriggja marka sigur Íslands sem mætir svo Þýskalandi í lokaumferð riðlakeppninnar á mánudaginn kemur.

Bjarni Ófeigur Valdimarsson var markahæstur í þessum leik með níu mörk. Viktor Gísli Hallgrímsson varði hátt í 20 skot í leiknum og var valinn besti leikmaður leiksins.