Víkingur lagði ÍBV að velli 3-2 þegar liðin mættust í fyrsta leik átta liða úrslitanna í Mjólkurbikar karla í knattspyrnu í Vestmannaeyjum í kvöld.

Það voru raunar Eyjamenn sem hófu leikinn betur og Guðmundur Magnússon kom ÍBV í 2-0 með mörkum sínum í fyrri hálfleik.

Sölvi Geir Ottesen hóf svo endurkomu Víkings þegar hann skoraði með skalla eftir tæplega klukkutíma leik.

Nikolaj Andreas Hansen jafnaði svo metin skömmu síðar með marki úr vítaspyrnu sem dæmd var á Gilson Correia.

Danski framherjinn vann svo boltann af Correia í þriðja marki Víkings en Hansen lagði þá boltann á Erling Agnarsson sem tryggði Fossvogsliðinu sigurinn og sæti í undanúrslitum keppninnar.

Átta liða úrslitunum lýkur annað kvöld með þremur leikjum en þá mætast Breiðablik og Fylkir, FH og Grindavík og KR og Njarðvík.