Berglind Björg Þorvaldsdóttir skoraði tvö marka AC Milan þegar liðið bar sigurorð af Roma, 3-2, í ítölsku efstu deildinni í knattspyrnu kvenna í dag. Berglind Björg tryggði AC Milan sigurinn með seinna marki sínu í leiknum skömmu fyrir lok leiksins.

Roma komst tveimur mörkum yfir í leiknum en Berglind Björg hóf endurkomu AC Milan með marki sínum á 70. mínútu leiksins. Landsliðsframherjinn gekk til liðs við AC Milan sem lánsmaður frá Breiðabliki um nýliðna helgi og var þetta fyrsti leikur hennar fyrir ítalska liðið. Berglind Björg verður á láni hjá AC Milan fram á vorið.

AC Milan er áfram í fjórða sæti ítölsku efstu deildarinnar en minnkaði forskot Roma sem er sæti ofar í eitt stig með þessum sigri. Berglind og samherjar hennar eru svo fimm stigum á eftir Fiorentina sem situr í öðru sæti en tvö efstu liðin tryggja sér þátttökurétt í Meistaradeild Evrópu að ári.

Þá á AC Milan leik til góða á liðin fyrir ofan sig en næsti leikur Mílanóliðsins er við botnlið deildarinnar, Orobica, á laugardaginn kemur.

Mynd/AC Milan