Sport

Frá smán í Liechten­stein til hæstu hæða í Rúss­landi

Ótrúlegur uppgangur hefur verið í íslenskri knattspyrnu í karlaflokki síðasta áratuginn. Mikið vatn hefur runnið til sjávar síðan liðið var niðurlægt af smáþjóð haustið 2007.

Leikmenn Íslands fagna marki sínu gegn Noregi í vináttulandsleik liðanna á dögunum. Fréttablaðið/Stefán

Knattspyrnumenn Íslands risu ekki jafn hátt í alþjóðlegu umhverfi og viðskiptamenn landsins í aðdraganda hruns íslenska bankakerfisins árið 2008. Um miðjan októbermánuð árið 2007 fór íslenska karlalandsliðið í knattspyrnu í eina sína mestu sneypuför. Ísland sótti þá Liechtenstein heim í undankeppni Evrópumótsins sem haldið var í Austurríki og Sviss árið 2008. Liechtenstein fór með 3-0 sigur af hólmi sem er stærsti sigur þessarar smáþjóðar í undankeppni stórmóts. Þetta var raunar einungis annar sigur Liechtenstein í undankeppni Evrópumóts í sögunni.

Á sama degi var hins vegar ljósið í myrkri íslenskrar knattspyrnu á þeim tíma að spila með U-19 ára landsliði Íslands sem atti kappi við Rúmena. Gylfi Þór Sigurðsson skoraði þar annað marka íslenska liðsins í 2-0 sigri í undankeppni Evrópumótsins árið 2008 í þeim aldursflokki. Gylfi Þór minnti svo enn frekar á sig þegar hann skoraði þrjú mörk fyrir Ísland í milliriðli undankeppninnar.

Gylfi Þór Sigurðsson í leik með U-21 árs landsliðinu á Evrópumótinu í Danmörku. Fréttablaðið/Anton Brink

Haustið 2007 voru leikmenn á borð við Aron Einar Gunnarsson, Ara Frey Skúlason, Birki Bjarnason, Rúrik Gíslason, Kolbein Sigþórsson og Hólmar Örn Eyjólfsson, þrátt fyrir ungan aldur, burðarásarnir í U-21 árs landsliðinu. Gylfi Þór braut sér svo leið inn í þetta lið um þetta leyti eftir vaska framgöngu sína með U-19 ára landsliðinu.

Það var svo í undankeppni fyrir Evrópumót U-21 árs landsliða sem haldið var í Danmörku árið 2011 sem núverandi lykilleikmenn íslenska landsliðsins stukku hressilega fram á sjónarsviðið. Alfreð Finnbogason, sem átti hvorki leik fyrir U-17 eða U-19 ára landslið Íslands, var markahæsti leikmaður liðsins í þeirri undankeppni ásamt Jóhanni Berg Guðmundssyni með fimm mörk. Rúrik Gíslason kom næstur með fjögur mörk og Gylfi Þór og Kolbeinn skoruðu þrjú mörk hvor.

Segja má að sigur þessa liðs á Þýskalandi í Kaplakrika í þessari undankeppni í ágúst árið 2010 hafi kveikt von í brjóstum íslenskra knattspyrnuáhugamanna um að bjartari tímar væru fram undan hjá íslenska A-landsliðinu í karlaflokki. Ísland tryggði sér svo þátttökurétt í lokakeppni mótsins með sigri gegn Skotlandi þar sem Gylfi Þór minnti hressilega á sig með stórglæsilegu marki í leik liðanna ytra.

Aron Einar Gunnarsson í leik með íslenska landsliðinu árið 2011. Fréttablaðið/Gettty

Aroni Einari var svo kastað út í djúpu laugina af Ólafi Jóhannessyni og Pétri Péturssyni í undankeppni heimsmeistaramótsins 2010, en hann lék þar sinn fyrsta mótsleik einungis 19 ára gamall og lék alls sjö leiki í þeirri undankeppni. Sú reynsla sem hann fékk í undankeppninni var einn af fáum ljósum punktum í þeirri undankeppni, en það átti svo sannarlega eftir að skila sér þegar fram í sótti.

Fleiri leikmenn fylgdu svo í djúpu laugina með Aroni Einari í undankeppni Evrópumótsins árið 2012. Birkir Bjarnason, Gylfi Þór, Jóhann Berg, Rúrik og Kolbeinn voru allir farnir að gera sig gildandi hjá liðinu þrátt fyrir ungan aldur og báru liðið uppi í þessari undankeppni. Alfreð Finnbogason fékk nokkra leiki og þá lék Hannes Þór Halldórsson sinn fyrsta mótsleik fyrir A-landsliðið í undankeppninni.

Fyrrgreindir leikmenn tóku svo við keflinu í bland við eldri leikmenn í næstu undankeppnum og hafa borið hróður íslenska liðsins um víða veröld æ síðan. Íslenska liðið var grátlega nálægt því að komast í lokakeppni heimsmeistaramótsins sem haldið var í Brasilíu árið 2014, fór í átta liða úrslit á Evrópumótinu árið 2016 og heldur nú áfram að gera íslensku þjóðina stolta með því að taka þátt í lokakeppni heimsmeistaramóts í fyrsta skipti í sögunni.

Gylfi Þór Sigurðsson og Birkir Bjarnason fagna marki þess fyrrnefnda gegn Kósóvó í undankeppni HM 2018. Fréttablaðið/Ernir

Athugasemdir

Auglýsing
Auglýsing

Tengdar fréttir

Fótbolti

Boateng til Barcelona

Sport

NFL-stjarna kíkti á Gullfoss

Handbolti

Fyrsta tap Kristjáns kom gegn Noregi

Auglýsing

Nýjast

„Ekki hægt að biðja um betri byrjun“

Elín Metta með tíu landsliðsmörk

Elín Metta á skotskónum á Spáni

Veðja aftur á varaliðsþjálfara Dortmund

Hilmar hafnaði í 20. sæti

Matthías færir sig um set í Noregi

Auglýsing