Kundai var í byrjunarliði Zimbabve sem tók á móti Sadio Mané, leikmanni Liverpool og liðsfélögum hans í Senegal í Afríkukeppninni í dag. Leikurinn var spilaður í 29 stiga hita í Bafoussam í Kamerún. Kundai spilaði 70 mínútur í leiknum sem lauk með 1-0 sigri Sengal en sigurmarkið kom úr vítaspyrnu á lokasekúndum uppbótartíma venjulegs leiktíma.

Kundai, gekk til liðs við Vestra fyrir síðasta tímabil. Hann hefur áður verið á mála hjá liðum á borð við skoska liðið Celtic. Samningur hans þar rann út í júlí árið 2020.

Heimsfaraldur geisaði og það reyndist erfitt fyrir Kundai að finna sér nýtt lið. Í viðtali við Sportsmail á dögunum, segist Kundai hafa átt erfitt með að sætta sig við þann raunveruleika að þurfa yfirgefa Celtic.

,,Það var erfitt að fara fram úr á morgnanna, ég átti í erfiðleikum með að nærast eðlilega og sofa. Átti í raun í erfiðleikum með allt," sagði Kundai í viðtali hjá Sportsmail.

Eftir stutta viðkomu hjá enska liðinu Wealdstone, gekk Kundai til liðs við Vestra, hann spilaði 18 leiki með liðinu í deild og bikar í fyrra.

Kundai viðurkennir að vera stressaður fyrir þátttöku sinni með landsliði Zimbabve í Afríkukeppninni.

,,Ég er spenntur, stressaður en einnig staðráðinn í að sanna mig. Zimbabve hefur í nokkur skipti komist í lokakeppni Afríkukeppninnar en við höfum aldrei komist upp úr riðlakeppninni. Það yrði meiriháttar afrek ef við næðum því. Við ætlum okkur ekki bara að taka þátt," sagði Kundai Benyu, miðjumaður Vestra og Zimbabve.

Kundai er ekki eini leikmaður Vestra frá Zimbabve, á dögunum samdi liðið við Silas Songani. Silas á að baki 11 landsleiki fyrir Zimbabve en hann kom til Vestra frá F.C. Platinum.