„Ég átti nú ekki von á þessu, að það myndi ár líða milli bardaga þegar veiran kom fyrst upp í fyrra. Ég var úti í lokaundirbúningi fyrir bardaga sem var blásinn af sex dögum fyrir bardaga. Svo átti ég að koma aftur seinni hluta sumarsins og berjast en það varð ekkert úr því. Það er mjög skrýtið að hugsa til þess að komið sér ár frá síðasta bardaga,“ segir Kolbeinn Kristinsson, eini atvinnuhnefaleikakappi Íslands, í samtali við Fréttablaðið um stöðu sína.

Í gær var eitt ár liðið frá síðasta bardaga Kolbeins og þeim fyrsta sem fór fram í Bandaríkjunum eftir að hafa skrifað undir hjá umboðsmannaskrifstofunni Salita Promotions. Þá hafði Kolbeinn betur gegn Dell Long með rothöggi í annarri lotu og vann með því tólfta atvinnumannabardagann sinn. Kolbeinn er enn ósigraður á atvinnumannsferlinum í hnefaleiknum.

Það eru enn eitthvað um hnefaleikakvöld á heimsvísu en þau eru heldur færri en það sem þekktist áður. Kolbeinn hefur fengið einhver tilboð um að berjast upp á síðkastið með tilheyrandi sóttvörnum í aðdraganda bardaganna en að hans sögn eru tilboðin yfirleitt ekki mjög heillandi.

„Það hafa nokkur tilboð komið inn á borðið en þau hafa verið misspennandi. Oftast eru þetta umboðsmenn annarra hnefaleikakappa að reyna að finna bardaga fyrir sína skjólstæðinga með stuttum fyrirvara, yfirleitt með tíu daga fyrirvara eða minna. Slíkur bardagi yrði alltaf mér í óhag og því ekki heillandi,“ sagði Kolbeinn og staðfesti að flest tilboðin væru að berjast í Bandaríkjunum.

Fyrir vikið er hann að reyna að æfa upp á eigin spýtur til að vera í góðu standi ef tilboð kemur en veit að tilboð um bardagakvöld rætast ekki alltaf.

„Ég hef verið að æfa eins og hægt er í þessum faraldri og þurft að æfa mikið heima enda alltaf einhverjar viðræður í gangi þótt að þær séu oft fljótar að detta upp fyrir. Ég held að um þriðjungur bardagakvölda falli niður og margir eru að missa bardaga rétt fyrir áætlaða dagsetningu. Það yrði fúlt að standa í undirbúningi, fljúga út og svo yrði þessu aflýst á síðustu stundu. “

Kolbeinn tók undir að það væri synd að geta ekki nýtt meðbyrinn eftir fyrsta bardagann í Bandaríkjunum.

„Þetta hefur verið einkennandi fyrir ferilinn minn, að fá aldrei að nýta meðbyrinn því það kemur eitthvað upp sem stöðvar það. Það var búið að skipuleggja fimm bardaga á síðasta ári, einn þegar faraldurinn var að hefjast og tvo með stuttu millibili um haustið en þeir féllu allir niður og það var bara þessi eini. Í þungavigtinni sem ég keppi í á maður að toppa á þessum tíma og það er því mjög pirrandi að missa heilt ár úr keppni en að sama skapi er ég búinn að bæta heilmiklu við vopnabúrið á þessum tíma með æfingum. Þetta fór ekki alveg í súginn þótt að það sé slæmt að fá ekki að berjast.“

Kolbeinn Kristinsson, hnefaleikakappi