Christian Eriksen, leikmaður danska landsliðsins í fótbolta, er nú á sjúkrahúsi eftir að hann hneig niður í leik Dana gegn Finnum á EM í fótbolta en endurlífgunartilraunir, þar á meðal hjartahnoð, voru reyndar á Eriksen áður en hann var fluttur af vellinum á sjúkrabörum.

Á myndum skömmu eftir atvikið sást Eriksen með opin augun þegar hann var fluttur af vellinum. UEFA hefur nú tilkynnt að Eriksen sé á lífi og ástand hans sé nú stöðugt en lítið var vitað um líðan Eriksen í fyrstu.

Eriksen er nú vakandi á Rigshospitalet í Kaupmannahöfn, að því er kemur fram í frétt DR um málið, þar sem ástand hans verður kannað nánar.

Leik liðanna er nú fram haldið og eru Finnar komnir yfir 1-0. Þar sem leikurinn var stöðvaður þegar fjórar mínútur voru eftir af fyrri hálfleik þegar leikurinn var stöðvaður munu liðin leika síðustu fjórar mínúturnar og seinni hálfleikinn, eftir fimm mínútna hálfleikspásu.

Leikur Rússa og Belga mun fara fram samkvæmt áætlun klukkan 19 að íslenskum tíma.

Fótboltaunnendur um allan heim biðja nú fyrir Eriksen en atvikið hefur vakið gríðarlega athygli um allan heim. Félagslið og landslið tísta nú stuðningskveðjum til Eriksen sem og fjölmargir heimsþekktir knattspyrnumenn sömuleiðis.