Þriggja manna nefnd á vegum KSÍ verður viðstödd opnunarleik lokakeppni Heimsmeistaramótsins í knattspyrnu sem fer fram á sunnudaginn í Doha, höfuðborg Katar. Þetta staðfesti Vanda Sigurgeirsdóttir, formaður KSÍ, í samtali við Fréttablaðið.
Vanda, Klara Bjartmarz, framkvæmdastjóri KSÍ, og Jörundur Áki Sveinsson, nýráðinn yfirmaður knattspyrnumála hjá sambandinu, verða viðstödd opnunarleikinn sem verður milli heimamanna í Katar og Ekvador á Al Bayt-vellinum næstkomandi sunnudagskvöld.
„FIFA er að bjóða knattspyrnusamböndum, þar á meðal KSÍ, á fund í tengslum við mótið sem heitir Fifa Football Summit. Hluti af því er meðal annars opnunarleikur mótsins,“ segir Vanda sem ætlar að nýta tækifærið og funda með knattspyrnuyfirvöldum annarra aðildarríkja.
„Í tengslum við þennan fund er á dagskrá okkar að funda með knattspyrnusamböndum. Albanía hefur óskað eftir viðræðum við okkur og við höfum óskað eftir fundi með knattspyrnuyfirvöldum í Sádi-Arabíu,“ segir Vanda.