Þriggja manna nefnd á vegum KSÍ verður við­stödd opnunar­leik loka­keppni Heims­meistara­mótsins í knatt­spyrnu sem fer fram á sunnu­daginn í Doha, höfuð­borg Katar. Þetta stað­festi Vanda Sigur­geirs­dóttir, for­maður KSÍ, í sam­tali við Frétta­blaðið.

Vanda, Klara Bjart­marz, fram­kvæmda­stjóri KSÍ, og Jörundur Áki Sveins­son, ný­ráðinn yfir­maður knatt­spyrnu­mála hjá sam­bandinu, verða við­stödd opnunar­leikinn sem verður milli heima­manna í Katar og Ekvador á Al Bayt-vellinum næst­komandi sunnu­dags­kvöld.

„FIFA er að bjóða knatt­spyrnu­sam­böndum, þar á meðal KSÍ, á fund í tengslum við mótið sem heitir Fifa Foot­ball Summit. Hluti af því er meðal annars opnunar­leikur mótsins,“ segir Vanda sem ætlar að nýta tæki­færið og funda með knatt­spyrnu­yfir­völdum annarra aðildar­ríkja.

„Í tengslum við þennan fund er á dag­skrá okkar að funda með knatt­spyrnu­sam­böndum. Albanía hefur óskað eftir við­ræðum við okkur og við höfum óskað eftir fundi með knatt­spyrnu­yfir­völdum í Sádi-Arabíu,“ segir Vanda.