Það má með sanni segja að loforð Evrópska handknattleikssambandsins um öflugar sóttvarnaraðgerðir til þess að sporna við smitum í þátttökuþjóðum Evrópumótsins í handbolta hafi fokið út í veður og vind eftir uppljóstrun nokkurra liða um upplifun sína við komuna á mótið.

Fjallað er um málið í franska miðlinu L'Equipe. Þar segir að franska landsliðið hafi við komuna á hótel í Ungverjalandi mætt fjölda fólks sem vildi bera liðið augum, þá snæði liðið morgunmat í sama sal og aðrir hótelgestir.

EHF ber fyrir sig að um skipulagsmistök hafi verið að ræða en ljóst er að málið rýrir sambandið, sem sagðist ætla gera allt sem í sínu valdi stendur til þess að tryggja öryggi þátttökuþjóða Evrópumótsins hvað kórónuveiruna varðar.

Undrandi og hneykslaðir

Nikola Karabatic, leikmaður franska landsliðsins var undrandi á málavöxtum á blaðamannafundi. ,,Við vorum undrandi og hneykslaðir í raun, við mættum hótelgestum sem voru ekki með grímur, síðan var okkur sagt að við myndum borða með öðrum hótelgestum."

Fjölmörg lið hafa í aðdraganda mótsins verið að glíma við Covid-19 smit innan sinna herbúða. Þá hafði íslenska landsliðið verið í ákveðinni sóttvarnarkúlu á Grand hótel fyrir för sína til Ungverjalands.

Guillaume Gille, landsliðsþjálfari Frakka, segir ástandið langt í frá boðlegt en Frakkar eru ekki þeir einu sem eru óánægðir með stöðuna sem upp er komin.

,,Hvernig getum við spilað?"

Toni Gerano, landsliðsþjálfari Serbíu, setti inn færslu á samfélagsmiðlinum Twitter þar sem hann skipulagsleysi á EM í handbolta. ,,Kaótískt skipulag af hendi EHF. Hótelgestir án grímna á sömu göngum og lið, ekki öll lið fara í Covid-próf, við erum enn að bíða eftir því að fara í próf og nokkrir leikmenn eru nú þegar smitaðir. Hvernig getum við spilað?" skrifar Toni Gerona á Twitter.

Franska landsliðið hefur sent inn kvörtun til framkvæmdarstjóra EHF, Martin Hausleitner, sem hefur lofað því að brugðist verði við.