Forskot, afrekssjóður, mun styðja við bakið á alls sex atvinnukylfingum á árinu 2023. Forskot hefur frá árinu 2012 úthlutað styrkjum til afrekskylfinga og er úthlutunin í ár sú 12. í röðinni.
Að sjóðnum standa: Eimskip, Valitor, Íslandsbanki, Icelandair, Vörður tryggingar, Bláa Lónið og Golfsamband Íslands.

Axel Bóasson, Bjarki Pétursson, Guðmundur Ágúst Kristjánsson, Guðrún Brá Björgvinsdóttir, Haraldur Franklín Magnús og Ragnhildur Kristinsdóttir fá úthlutað úr sjóðnum í ár.

Guðmundur Ágúst Kristjánsson er fæddur árið 1990 og gerðist atvinnukylfingur árið 2017. Guðmundur Ágúst er með keppnisrétt á DP World Tour, Evrópumótaröðinni, sem er í hæsta styrkleikaflokki atvinnumótaraða í karlaflokki í Evrópu. Hann er annar íslenski karlkylfingurinn sem nær keppnisrétti á DP World Tour, en Birgir Leifur Hafþórsson var sá fyrsti. Guðmundur Ágúst hóf yfirstandandi keppnistímabili í desember á síðasta ári og framundan er spennandi tímabil á DP World Tour.

Haraldur Franklín Magnús er fæddur árið 1991 en hann gerðist atvinnukylfingur árið 2017. Hann er með keppnisrétt á Challenge Tour, Áskorendamótaröðinni, sem er næst efsti styrkleikaflokkur hjá atvinnukylfingum í karlaflokki í Evrópu. Haraldur Franklín mun leika á fjölmörgum mótum á Challenge Tour á keppnistímabilinu.

Guðrún Brá Björgvinsdóttir er fædd árið 1994 og hún gerðist atvinnukylfingur árið 2018. Guðrún Brá tryggði sér keppnisrétt á LET Evrópumótaröðinni árið 2020 eftir að hafa leikið á LET Access mótaröðinni frá árinu 2018. Guðrún Brá fær fjölmörg tækifæri á sterkum mótum á tímabilinu en hún er með keppnisrétt á LET Evrópumótaröðinni, en mótaröðin er í efsta styrkleikaflokki atvinnumótaraða í kvennaflokki í Evrópu.

Axel Bóasson er fæddur árið 1990 en hann gerðist atvinnukylfingur árið 2013. Axel er með keppnisrétt á Nordic Golf League mótaröðinni sem er í þriðja efsta styrkleikaflokki atvinnumótaraða í Evrópu í karlaflokki. Axel á góðar minningar frá Nordic Golf League mótaröðinni en hann varð stigameistari á mótaröðinni árið 2017 – og fékk í kjölfarið keppnisrétt á Challenge Tour, Áskorendamótaröðinni tímabilið 2017-2018.

Bjarki Pétursson er fæddur árið 1994 og er hann með keppnisrétt á Challenge Tour, Áskorendamótaröðinni, og Nordic Golf League. Bjarki komst inn á lokaúrtökumót DP World Tour í nóvember á síðasta ári – í annað sinn á ferlinum. Bjarki hefur verið atvinnukylfingur frá árinu 2019.

Ragnhildur Kristinsdóttir er fædd árið 1997 og er hún á sínu fyrsta ári sem atvinnukylfingur. Ragnhildur fór í úrtökumótið fyrir LET Evrópumótaröðina í fyrsta sinn í desember á síðasta ári. Hún er með keppnisrétt á LET Access atvinnumótaröðinni á þessu tímabili, sem er næst sterkasta atvinnumótaröð Evrópu hjá atvinnukonum í golfi.

Nánar á Golf.is