Ó­hætt er að segja að for­síður helstu í­þrótta­dag­blaða Evrópu séu undir­lagðar Ofur­deildinni sem tólf af stærstu knatt­spyrnu­liðum Evrópu ætla að stofna.

Það er í raun sama hvert er litið, mikil reiði ríkir víða í Evrópu vegna deildarinnar og hafa liðin tólf verið sökuð um gegndar­lausa græðgi.

Sports­ma­il tók saman for­síður nokkurra af helstu í­þrótta­blöðum Evrópu í morgun og eru þær undir­lagðar Ofur­deildinni. Portúgalska blaðið A Bola stillir merkjum liðanna tólf upp á sinni for­síðu undir yfir­skriftinni „Wan­ted“. Undir merkjunum stendur svo „Dir­ty 12“ í letri sem minnir um margt á villta vestrið.

Á for­síðu ítalska blaðsins Gazzetta dello Sport stendur ein­fald­lega „FER­MATELI“ sem mætti þýða sem „STÖÐVIÐ ÞAU“. Fleiri for­síður má sjá hér neðst.

Eins og greint var frá í gær hafa Manchester United, Liver­pool, Manchester City, Arsenal, Totten­ham, Chelsea, Real Madrid, Barcelona, At­letico Madrid, Juventus, AC Milan og Inter skrifað undir sam­komu­lag um stofnun deildarinnar. Myndu liðin þá leika í henni í stað Meistara­deildar Evrópu.

Allt er í háa­loft vegna málsins og hefur for­seti Evrópska knatt­spyrnu­sam­bandsins, Aleksander Ceferin, hótað því að leik­menn um­ræddra liða fái ekki að spila í leikjum á veg UEFA eða FIFA, til dæmis EM og HM til dæmis. Þá hafa stuðnings­menn víða um heim látið í sér heyra og óttast margir að knatt­spyrnan og rómantíkin sem henni fylgir heyri brátt sögunni til.