Joan Laporta, forseti spænska knattspyrnustórveldisins Barcelona segist staðráðinn í því að láta Lionel Messi, goðsögn í sögu félagsins og núverandi leikmann Paris Saint-Germain enda ferilinn sem leikmaður Barcelona.

Frá þessu greindi Laporta frá opinberlega í New York í Bandaríkjunum en Barcelona hefur verið í æfingarferð vestanhafs undanfarna daga.

Messi fór á frjálsri sölu frá Barcelona til PSG fyrir síðasta tímabil og Laporta segir það hafa verið endalok sem engin hjá Barcelona geti sætt sig við.

,,Það er alveg ljóst að tími Messi hjá Barcelona endaði ekki eins og við hefðum viljað og ég get tekið hluta ábyrgðarinnar á mig í þeim efnum. Ég vil að ferill hans endi í treyju Barcelona," sagði Joan Laporta.

Messi er besti leikmaðurinn í sögu Barcelona og hann varð fyrir löngu goðsögn í þeirri sögu. Argentínski knattspyrnusnillingurinn spilaði á sínum tíma 776 leiki fyrir Börsunga, skoraði 670 mörk og gaf 302 stoðsendingar.

Þá vann hann til fjölda titla. Vann meðal annars Meistaradeild Evrópu í fjórgang og hefur orðið spænskur meistari tíu sinnum.