Dana White, forseti UFC, sá til þess eftir fyrirspurn frá Gunnari Nelson, að dúkurinn sem settur var á bardagabúrið í O2-höllinni fyrir bardagakvöld sambandsins í Lundúnum um síðustu helgi yrði sendur til Mjölnis hér í Reykjavík. Gunnar Nelson vann yfirburðarsigur á bardagakvöldinu gegn Takashi Sato í endurkomu sinni í UFC.

Pétur Marínó Jónsson, verkefnastjóri Mjölnis, segir í samtali við Fréttablaðið í dag að Gunnar hafi spurt Dana White, forseta UFC, hvar hægt væri að fá sambærilegan dúk og settur er á bardagabúrin hjá UFC því huga ætti að kaupum á slíkum dúk fyrir Mjölni.

,,Dana sagðist bara ætla að redda þessu fyrir Mjölni og senda dúkinn sem var á bardagabúrinu í O2-höllinni til okkar. Stuttu seinna kom maður á vegum UFC til okkar, tók niður heimilisfangið hjá Mjölni og dúkurinn barst okkur áðan."

Dúkurinn barst Mjölni í dag
Mynd: Mjölnir

Bardagakvöldið í Lundúnum sló í gegn og því verður gaman fyrir iðkendur Mjölnis að fá tækifæri til þess að berjast á þessum þekkta dúk.

Pétur segir að stytta þurfi dúkinn örlítið svo að hann passi í bardagabúrið í höfuðstöðvum Mjölnis en farið verði í það verkefni og dúkurinn settur á búrið á morgun.

,,Við komum honum einhvernveginn fyrir, engin spurning," sagði Pétur Marínó Jónsson, verkefnastjóri Mjölnis í samtali við Fréttablaðið í dag.

Gunnar fagnar sigri á dúknum umrædda
GettyImages