Aleksander Ceferin, forseti Evrópska knattspyrnusambandsins, UEFA, var ómyrkur í máli þegar hann ræddi Ofurdeild Evrópu á blaðamannafundi í gær.

Áform tólf félaga um stofnun Ofurdeildarinnar voru kynnt á sunnudagskvöldið en í gær kynnti UEFA nýtt fyrirkomulag sem verður á Meistaradeild Evrópu.

Orð Ceferin staðfestu þann grun sem knattspyrnuáhugamenn hafa haft um að það andi köldu milli forsetans og forráðamanna félaganna sem standa að baki Ofurdeildinni.

„Þessir snákar og lygarar hafa sagt við mig að þeir styðji fyrirhugaðar breytingar á Meistaradeildinni en gengu svo á bak orða sinna,“ segir Ceferin sem beindi orðum sínum að Andrea Agnelli, forseta Juventus, og Ed Woodward, stjórnarformanni Manchester United.

Ekki liggur fyrri hvert fyrirkomulag verður á keppnum sterkustu félaga Evrópu. Forsetar UEFA og FIFA hafa sagt að þeir sem leika í Ofurdeildinni megi ekki keppa í mótum á vegum sambandanna.