Mohammed Ben Sulayem, forseti Alþjóða akstursíþróttasambandsins (FIA) mun hætta daglegum afskiptum af mótaröð sambandsins, Formúlu 1. Frá þessu var greint fyrr í dag og er ákvörðun Mohammed talin litast af ýmsum erfiðum málum sem hann hefur tengst undanfarið.
Hann mun samt sem áður sitja áfram í embætti forseta FIA sem hann var kosinn í undir lok ársins 2021.
Mohammed greindi liðunum sem standa að Formúlu 1 frá ákvörðun sinni á mánudaginn síðastliðinn, það mun falla í skaut FIA stjórnandans Nikolas Tombazis að taka við þeim hlutverkum sem Mohammed hafð á sinni könnu í Formúlu 1.
Þrátt fyrir þessar vendingar mun Mohammed enn hafa eitthvað að segja um Formúlu 1 og mun hann taka þátt í ákvörðunum á hæsta stigi er koma að mótaröðinni.