Íslenska liðið flýgur út til Ungverjalands á morgun og í Íþróttavikunni með Benna Bó fóru þeir Einar Örn Jónsson, íþróttafréttamaður RÚV og Hörður Snævar Jónsson, ritstjóri, yfir málin í aðdraganda mótsins.

Einari lýst vel á íslenska hópinn í aðdraganda mótsins. ,,Við erum með svo gott sem fullskipað íslenskt lið. Það hefði náttúrulega verið betra að hafa Hauk Þrastarson með en maður skilur vel að hann vilji ná sér góðum, við eigum hann þá bara inni, hann er kornungur ennþá."

Einna bestu fréttirnar fyrir íslenska landsliðið sem og stuðningsmenn þess eru þær að Aron Pálmarsson, er heill heilsu.

,,Aron Pálmarsson kemur aftur sem er alveg ótvíræður styrkur fyrir íslenska liðið. Það er ekki bara það að hann sé fyrirliði liðsins, heldur er hann einn af bestu leikmönnum heims.."

Einar hefur trú á því að íslenska liðið geti gert góða hluti á mótinu. Liðið er með heimamönnum í Ungverjalandi, Portúgal og Hollandi í riðli.

,,Það eru býsna margar stjörnur farnar að raðast upp og góðar forsendur fyrir því að við ættum að geta gert góða hluti á þessu móti. Það eru fjögur lið í hverjum riðli og nú fara bara tvö lið áfram í milliriðla í staðinn fyrir þrjú," sagði Einar Örn í Íþróttavikunni með Benna Bó

Hann segir það mjög mikilvægt að við töpum ekki fyrir Portúgal í fyrsta leik mótsins. ,,Því ef við töpum fyrir Portúgal gætum við verið komnir í þá stöðu að lenda í úrslitaleik í riðlinum við Ungverjaland sem er ekkert sérstaklega aðlaðandi í 20.000 manna höll í Búdapest."