Spænski knattspyrnustjórinn Unai Emery sem var látinn taka pokann sinn hjá Arsenal á dögunum hafnaði því að sögn Skysports að taka við stjórnartaumunum hjá Everton.

Everton er í leit að framtíðar knattspyrnustjóra eftir að félagið sagði Portúgalanum Marco Silva upp störfum í síðustu viku.

Duncan Ferguson stýrir liðinu til bráðabirgða en undir hans stjórn sigraði liðið Chelsea, 3-1, í 16. umferð ensku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu um nýliðna helgi og lyfti sér upp í 14. sæti deildarinnar með sín 17 stig.

Portúgalinn Vitor Pereira sem stýrir kínverska ofurdeildarliðinu Shanghai SIPG er talinn vera efstur á óskalista forráðamanna Everton.

Á þeim lista er einnig samlandi hans Leonardo Jardim sem gert hefur góða hluti með franska liðið Monaco, Argentínumaðurinn Marcelo Gallardo sem er í brúnni hjá River Plate og Ítalinn Carlo Ancelotti sem tók við Napoli í sumar.